Um nokkurt skeið hefur munum verið safnað í Fangelsisminjasafn Íslands. Fangaverðir hafa verið mjög áhugasamir um verkið og þó nokkurt magn muna komið í hús. Markmiðið er að Fangelsisminjasafn Íslands verði á Eyrarbakka. Safnið hefur eignast fjóra glersýningarskápa. Á vordögum mun það verða opnað og komið formlega á fót. Hér fyrir neðan er drög að samþykktum um safnið. Allar ábendingar eru vel þegnar.

Samþykktir (drög)

1.gr.

Félagið heitir „Félag um: Fangelsisminjasafn Íslands.“

2. gr.

Tilgangur félagsins er að koma upp Fangelsisminjasafni Íslands í því skyni að varðveita sögu fangelsa á Íslandi. Þeirri sögu heyra til allir þeir munir sem tilheyrt hafa fangelsum landsins með einum eða öðrum hætti og eru ekki lengur notaðir. Þá hyggst félagið og finna safninu hentugt húsnæði á Eyrarbakka.

3. gr.

Tilgangi sínum hyggst félagið ná með að safna munum, sem tilheyrt hafa fangelsum, skrá sögu þeirra og sýna þá almenningi þegar aðstæður leyfa. Einnig að safna myndum, skjölum og hverju því sem kann að tengjast sögu fangelsa, starfi fangavarða og lífi fanga innan fangelsa.

4. gr.

Félagsaðild.  Öll þau sem áhuga hafa á málefnum Fangelsisminjasafns Íslands og vilja greiða götu geta orðið félagar.

5. gr.

Starfstímabil félagsins er almanaksárið.  Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins árs.  Aðeins félagsmenn mega vera þátttakendur í aðalfundi.

6. gr.

Aðalfund skal halda eigi síðar en 1. ágúst ár hvert og skal boða til hans með að minnst tveggja vikna fyrirvara og þá alla jafna í tölvupósti.  Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Einfaldur meirihluti mættra félagsmanna ræður úrslitum mála.  Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Skýrsla stjórnar lögð fram
  3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
  4. Lagabreytingar
  5. Ákvörðun félagsgjalds
  6. Kosning stjórnar
  7. Önnur mál

7.gr.

Stjórn félagsins skal skipuð fimm félagsmönnum, formanni og fjórum meðstjórnendum,  kjörnum á aðalfundi til eins árs í senn. Einnig er heimilt að kjósa allt að fimm varamenn. Formaður er kosinn sér á aðalfundi en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum.  Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda. Formaður boðar til funda.  Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar.

8.gr.

Ákvörðun um félagsgjald skal tekin á aðalfundi. Félagsgjöld skulu innheimt árlega.

9. gr.

Rekstrarafgangi/hagnaði af starfsemi félagsins skal varið í samræmi við tilgang félagsins.

10. gr.

Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi með einföldum meirihluta atkvæða og renna eignir þess til Byggðasafns Árnesinga.

Lög þessi voru samþykkt á stofnfundi Félags um Fangelsisminjasafns Íslands

Eyrarbakka X. maí 2018