Greiður netaðangur getur komið höfðinu í lag.

Í opnum fangelsum hafa fangar leyfi til að nota eigin tölvur. Það gengur allajafna vel. Þeir sem misnota þær fá orð í eyra og tölvan er tekin af þeim í ákveðinn tíma. Langflestir nota tölvunar og netaðgang eins og almenningur. Greiður netaðgangur í nútímanum er nánast eins og aðgangur að góðu andrúmslofti. Mikilvægt er að þau sem eru bak við lás og slá missi ekki af þeirri öru þróun sem er í tölvuheiminum og komi ekki út úr fangelsi eins og álfar úr hól. Sérstaklega á þetta við um langatímafanga.

Oft er sagt að enginn sé svo aumur starfsmaður í nútímanum að hann sitji ekki eða standi fyrir framan skjá. Nútíminn er í raun fyrir framan skjá, í leik og störfum.

Það er sennilega aðeins tímaspursmál hvenær almennur netaðgangur verður leyfður í öllum fangelsum. Næsta öruggt er að það mun breyta andrúmsloftinu í fangelsum til hins betra, efla hug og dug fanganna, veita þeim tækifæri til að vafra um netheima sér til skemmtunar og fróðleiks. Þeir fangar sem hins vegar misnota þessa tækni gjalda fyrir það með tölvubanni o.þ.h. viðurlögum. Hver maður er ábyrgur gjörða sinna í þessu efni sem öðrum.

Hin brennandi spurning er: Hvenær gengur tölvuöld inn fyrir alla múra? Væri til dæmis ekki ráð að byrja á  einni fangadeild í lokuðu fangelsi og leyfa þar frjálsan netaðgang og sjá hvernig til tekst? Slík deild gæti hugsanlega líka orðið ein af hinum frægu gulrótum í þessum geira mannlífsins.