Er lífið stutt lygasaga?

Mynd á húsvegg í Reykjavíkurborg

Hver maður veltir fyrir sér lífinu og tilgangi þess. Og flestir fá einhvers konar svar sem þeir láta duga. Svarið getur verið af trúarlegum toga þar sem markmiðið með lífinu er ljóst og menn fá vissu fyrir því að einhvers konar vald er á bak við heiminn.

En svarið getur líka verið fyllt efnishyggju þar sem hlutir skipta mestu máli. Sú efnishyggja getur birst í fégirnd, og markmið lífsins er að eignast alls konar tól og tæki. Öllu lífinu er varið í þá miklu sókn sem aldrei tekur enda.

Menn geta einnig fengið þunglyndisleg svör um tilgangsleysi lífsins og þá byrði sem það getur verið og hana verður að bera. Þeir geta tekið undir með Makbeð þar sem hann segir:

Sljór farandskuggi er lífið, leikari,
sem fremur kæki á fjölunum um stund
og þegir uppfrá því, stutt lygasaga
þulin af vitfirringi, haldlaust geip,
óráð, sem merkir ekkert.

(Makbeð eftir W. Shakespeare, þýð. Helga Hálfdanarsonar, 5.24-28)

Maðurinn er sú vera sem leitar að tilgangi með lífi sínu og hefur með því nokkra sérstöðu í heiminum. Stundum er þessi leit að tilgangi kölluð hamingjuleitin því það er næsta öruggt að um leið og menn hafa komist á snoðir um einhvers konar tilgang með lífinu þá kynnist þeir um stund hamingjunni. Það á líka við um þá sem líta á lífið sem ferð án nokkurs fyrirheits. Lífið getur orðið hversdagsleg skylduganga – eða sem stutt lygasaga? – sem vissulega getur falið í sér ánægju og hamingju þó farin sé mót köldum skugga æviloka.

Hugmyndir okkar mannanna um lífið og tilgang þess koma úr ýmsum áttum. Allt frá blautu barnsbeini streyma hugmyndir til okkar frá uppalendum og samfélaginu. Hugmyndir um það hvað fólgið sé í lífinu og hvernig sé best að verja ævinni hvort heldur hún kann að vera stutt eða löng. Undan þessu kemst enginn maður vegna þess að manneskjan er alin upp í samfélagi – alin upp meðal manna sem ekki eru klumsa heldur eru lifandi og færa okkur hugmyndir. Sumar þeirra kunna að vera tilviljunarkenndar en aðrar eru ekki nýjar af nálinni heldur hafa borist frá einni kynslóð til annarrar. Manneskjan hefur vitað það um aldir að komi hún ekki hugmyndum til nýrra kynslóða um það hvað sé rétt og hvað sé rangt, gott og fagurt, þá sé fátt að óttast í heiminum nema þá kannski hana sjálfa.

Stundum er talað um að dýrið í manneskjunni sé í viðjum þessara hugmynda og siða og það taldir vera góðir fjötrar. Hún sé nánast eins og lítill Fenrisúlfur sem Völuspá talar um eða hið eyðandi skrímsli Levjatan sem finna má í fornum sköpunarsögum.

Við erum ekki há í loftinu þegar við kynnumst baráttu milli hugmynda. Stundum er sú barátta byggð á skynsemi og visku en manneskjan hefur möguleika á því að þroska þær dygðir með sér. En hún getur líka tygjað sig hatri og fólsku – ódygðum sem hún hallar sér að. Baráttan er hvað hörðust þegar menn reyna að útrýma hugmyndum hvers annars og í því efni er hugkvæmnin takmarkalaus og ófyrirleitnin liðtækur bandamaður.

Manneskjan er semsé ofin úr mörgum þáttum og sumir þeirra eru sterkir en aðrir veikir. Hugur mannsins dvelur í líkama sem er flókið fyrirbæri, hvort tveggja í senn sterkt og veikt. Líkami og hugur eru sem lífsförunautar og kanna heiminn. Það er háskaför enda þótt heimurinn geti verið fagur og ljúfur þá ber hann líka í sér illsku og hörmung. Um þessar slóðir heldur hver maður og hann hefur ekki lengi farið þar um þegar spurning vaknar í huga hans um tilgang ferðarinnar andspænis djúpum mótsögnum tilverunnar.

Einn er sá þráður í verund mannsins sem verður honum sem haldreipi á lífsgöngu hans. Það er trú. Sennilega hefur einhvers konar trú fylgt honum frá öndverðu og jafnan hlaupið í farveg formlegs átrúnaðar með vissu helgihaldi. Kannski má segja að fyrst komi trúin og síðan átrúnaðurinn. Hinn ókunni höfundur bréfsins til Hebrea segir þetta um trú: „Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá. Fyrir trú hlutu mennirnir fyrr á tíðum velþóknun Guðs. Fyrir trú skiljum við að Guð skapaði heimana með orði sínu og að hið sýnilega varð til af hinu ósýnilega.“ (11.1-2). Og þessir ókunnugi höfundur segir svo síðar: „Beinum sjónum okkar til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar.“ (12.2). Sú sýn hefur engum brugðist.

By | 2018-02-27T08:21:17+00:00 27. febrúar 2018|Pistlar|