Einsemd

Í einsemd hefur þetta verið skrifað á ofninn.

Allir menn finna fyrir einsemd einhvern tíma á ævinni. Manneskjan er einstaklingur með drauma, vilja og þrek. Hún er ein í líkamanum og huga sínum. En manneskjan er líka félagsvera og hefur ánægju af því að vera með öðrum. Hún kýs sér félagsskap sinn, velur og hafnar. Í fangelsi er maðurinn skikkaður til að vera í félagsskap sem hann hefur ekki kosið sér. Suma kann hann vel við og aðra ekki. En hann verður að deila kjörum með þeim um stund.

Í fangelsi finna menn oft fyrir einsemd. Fangarnir eru fjarri öllum sínum nánustu og bíða þess með óþreyju að losna. Þegar klefa er lokað að kvöldi eru þeir einir með sjálfum sér. Stundum eru þeir reyndar fegnir því að hafa tíma fyrir sjálfa sig og eiga ekki von á að samfangi þeirra trufli þá. En engu síður finna þeir fyrir einsemd. Þeir eru einir með sjálfum sér. Læstir bak við dyr. Lokaðir af. Það er ótvíræðasta merkið um að þeir eru í fangelsi.

Fangelsið er tákn einsemdar enda þótt það kunni að iða af lífi. Tákn þess að manneskjur bíða skipbrot og þeim síðan vísað út úr hinu frjálsa samfélagi til samfélags einsemdarinnar. Fyrr á tímum voru fangelsi reist á afviknum stöðum og eyðilegum. Slíkir staðir þóttu hæfa einsemdinni best.

Enda þótt vel virðist liggja á fanga þá getur einsemdina búið í brjósti hans. Hann vill kannski ekki bera tilfinningar sínar á torg og lætur sem allt sé í lagi. Enda er slagorð nútímans að allir skuli vera kátir og hressir. Það er gott í sjálfu sér þegar við á. En manneskjan er tilfinningavera og margt leynist í hugskoti hennar. Þekkt er að í  mannmergð stórborga geta menn fundið fyrir einsemd. Þeir þekkja fáa nema sjálfa sig – ef þeir gera það þá. Hvergi er kunnuglegt andlit að sjá heldur aðeins framandi. Menn á þönum í ýmsar áttir í ákveðnum tilgangi. Í raun og veru einir í mannhafinu.

Einsemd bankar upp hjá mönnum þegar þeir finna fyrir tilgangsleysi. Í augum fanga hafa fangelsi ekki annan tilgang en þann sem samfélagið hefur gefið þeim. Fanginn er slitinn upp frá öllu sem honum er kært. Hann reynir að sjá tilgang í því sem hann tekur sér fyrir hendur á hverjum degi hvort heldur það er nám eða vinna. Því betur sem honum tekst að fylla út í eyður dagsins með tilgangi því meira hopar einsemdin. En líði hver dagurinn á fætur öðrum án tilgangs verður einsemdin þyngri viðureignar.

Það er gömul list að þekkja sjálfan sig. Mönnum tekst það misvel eins og annað hér í lífi. Einsemdin þarf ekki alltaf að vera neikvæð og þrúgandi. Þegar hún hvolfist yfir sjá menn sjálfa sig aldrei eins vel og áður. Þeir sjá kosti sína og galla. Sjá sjálfa sig sem einstaklinga og hvaða mann þeir hafa að geyma. Rifja upp samband sitt við annað fólk, sjá hvað tókst vel og hvað miður. Uppgötva skyndilega hverjir eru vinir þeirra í raun og hverjir ekki.

Hver maður skynjar með huga sínum og anda hver hann sjálfur er. Öll sjáum við okkur sjálf út frá sjónarhorni sem enginn annar hefur. Við sjáum okkur stundum ein á meðal manna og oft yfirgefin um stund. Spyrjum þá hver þessi manneskja sé. Já, hver er ég í raun og veru? Hvernig ætla ég að verja lífi mínu? Hvers virði er líf mitt og hver metur það?

Stundum er sjálfsvorkunn fylgifiskur einsemdar en hún getur dregið allan mátt úr mönnum. Sjálfsvorkunn er slæmur ferðafélagi í lífinu og getur svælt út allan góðan vilja og frumkvæði. Hún kemur mönnum í ógöngur og byrgir þeim alla sýn. Hver maður sem þekkir einsemdina þegar hún knýr dyra verður að vita af þessari ósýnilegu fylgju hennar, sjálfsvorkunninni. Um leið og menn finna fyrir henni ættu þeir að gefa sjálfum sér kinnhest og varpa henni út í hafsauga.

Einsemd er eins og aðrar tilfinningar, hún kemur og fer. Sá sem þekkir sjálfa/n sig veit að þegar einsemdin knýr dyra þá er best að hafa gætur á sjálfum/sjálfri sér. Hún getur gert sig býsna heimakomna en hún getur líka tekið hafurtask sitt í fússi ef leitað er ráða um hvernig koma eigi henni út. Þá erum við betur í stakk búin til að takast á við hana næst þegar hún sýnir sig og gefum þá ekkert eftir.

Að lokum er gott að minna sig á 10da vers 2. Passíusálms sr. Hallgríms Péturssonar – og taka sérstaklega eftir því þegar rætt er um einsemdina að: Huggun er manni mönnum að.

Freisting þung ef þig fellur á,
forðastu einn að vera þá.
Guðhræddra selskap girnstu mest,
gefa þeir jafnan ráðin best.
Huggun er manni mönnum að.
Miskunn guðs hefur svo tilskikkað.

 

By | 2018-03-05T08:31:53+00:00 5. mars 2018|Pistlar|