Kápumynd bókarinnar. Ekki kemur fram hver teiknaði myndina.

„Því dæmist rétt vera…“, er sennilega fyrsta bókin sem byggði á eigin reynslu höfundar af fangavist á Litla-Hrauni. Hún kom út árið 1936 og höfundur var Vernharður Eggertsson (1909-1952) sem síðar tók sér skáldanafnið Dagur Austan og var ágætlega pennafær maður. Í bókinni segir höfundur frá flótta úr fangelsinu á Litla-Hrauni um miðjan júní árið 1935 og ýmsum ævintýrum sem komu í kjölfar hans. Hann segir í formála að bókin sé þáttur úr væntanlegri ævisögu (sem kom reyndar aldrei út) sem og svar til manna sem hafa svívirt hann „persónulega, bæði opinberlega og innbyrðis meðal kunningja og vina“ (bls. 3) og svarinu sé einnig beint til forstöðumannsins á Litla-Hraun sem logið hafi upp á hann ýmsu í blöðum. Bók þessi er 94 blaðsíður í litlu broti. Þorlákur Axel Jónsson hefur ritað bók um ævi Vernharðs og kom hún út árð 2009: Dagur Austan: Ævintýramaðurinn Vernharður Eggertsson.