Bænaljós var tekið í notkun á Litla-Hrauni við minningarstund fyrir nokkru.  Þessi bænaljós mynda tré og efst er kross. Það er táknrænt: lífsins tré sem ber ljósið í heiminn. Hægt er að setja sjötíu ljós á bænaljósastandinn. Fangi á Litla-Hrauni vann verkið undir leiðsögn fangavarðar og fangaprests.

Það er mikilvægt fyrir aðstandendur að vita til þess að hlúð sé að föngum hvað hina trúarlegu hlið snertir og þess vegna hefur þjóðkirkjan haft sérstakt embætti í nær því hálfa öld sem heitir fangaprestur. Hann sinnir föngum og aðstandendum og eru þeir hvattir til að hafa samband við hann þegar þurfa þykir.

Þegar bænaljósastandurinn var tekinn í notkun kveiktu fangar á kerti til minningar um fanga sem lést. Þeir voru alvarlegir í bragði og settu logandi kertin á stjakann. Falleg stund og eftirminnileg. Þeim þótti gott að geta kveikt bænaljós fyrir látinn vin og minnast hans með virðingu.

Í guðsþjónustum á Litla-Hrauni verður bænastandurinn notaður með ýmsu móti.

Hér er dæmi um sígildan bænastand í kirkju í útlöndum.