Fögur er sveitin og andrúmsloftið hollt. Vantslitamynd af Litla-Hrauni frá fyrstu árum þess, eftir Höskuld Björnsson (1907-2013). Myndin er í eigu Litla-Hrauns.

Segja má að það hafi verið tilviljun að vinnuhæli eða betrunarhús var stofnað á Litla-Hrauni á sínum tíma. Starfsemin hófst með formlegum hætti hinn 8. mars árið 1929 og komu þá þrír menn úr Hegningarhúsinu í Reykjavík til að taka út refsingu sína.

Miklar umræður höfðu farið um Hegningarhúsið í Reykjavík. Það var talið með öllu ónothæft sem fangelsi og auk þess vantaði rými fyrir dæmda menn. Töldu menn brýnt að grípa til einhverra ráða.

Jónas Jónsson frá Hriflu var dómsmálaráðherra og hafði fengið augastað á því sem hann kallaði „steinkassa“, Eyrarspítala á Eyrarbakka, sem stóð auður og yfirgefinn enda hafði tilraun til að koma honum á fót farið út um þúfur. Konur í Kvenfélagi Eyrarbakka höfðu safnað af miklum krafti fé í rúma tvo áratugi til að koma sjúkrahúsinu upp. Það voru þeim vonbrigði að svo skyldi ekki takast. Í fundargerðabókum kvenfélagsins ríkir djúp þögn um að í stað sjúkrahúss skuli húsnæðið verða tekið undir aðra starfsemi en hjúkrun sjúkra.

Frumvarpið sem dómsmálaráðherrann bar upp á Alþingi var stutt og laggott:

„Landsstjórninni skal heimilt að verja af ríkisfje alt að 100 þús. kr. til að kaupa land og láta reisa betrunarhús og letigarð, þar sem skilyrði þykja góð, til að fangar, og slæpingar, sem ekki vilja vinna fyrir sjer eða sínum, geti stundað holla og gagnlega vinnu.“ (Alþingistíðindi 1928, fertugasta löggjafarþing. A. Þingskjöl með málaskrá, Reykjavík 1928, 12. mál, bls. 86).

En orðinu letigarður var svo breytt í vinnuhæli enda talið betur viðeigandi að kenna þessa nýju stofnun við göfugt markmið sitt heldur en að tala óvirðulega um hana.

Elsta húsið á Litla-Hrauni er frá árinu 1920, en þá var hafist handa við byggingu þess. Húsameistari ríkisins, Guðjón Samúelsson, teiknaði það sem sjúkrahús. Það var fyrsta sjúkrahúsið sem hann teiknaði en hann átti eftir að teikna þau mörg – og stærst þeirra Landspítalinn í Reykjavík. Þegar ákveðið var að hafa vinnuhæli á Litla-Hrauni endurteiknaði hann hluta af húsinu innanverðu. Síðan voru fleiri fangahús byggð og tekin í notkun, 1972, 1980 og 1995.

Meginmarkmiðið með vinnuhælinu fyrir utan það að menn afplánuðu sína dóma var að þeir kæmust út í heilnæmt sveitaloftið og ynnu við búskap. Fyrstu áratugina störfuðu menn við mjög svo fjölbreytileg störf. Segja má að Litla-Hraun hafi verið opið fangelsi fyrstu áratugina. Unnu fangar m.a. við vegagerð og voru fjarri Hælinu í marga daga í senn.

Litla-Hraun hefur verið aðalfangelsið á Íslandi allt fram til þessa og mun verða svo um ókomin ár. Þar afplána menn sem þyngsta dóma hafa hlotið áður en þeir fara í opin fangelsi. Á Litla-Hrauni er skólastarf hvað rótgrónast og sömuleiðis hefur margs konar vinna verið stunduð þar á umliðnum árum.

Flestir starfsmenn Litla-Hrauns koma frá Eyrarbakka, Selfossi og Hveragerði. Einnig úr næstu sveitum. Þeir hafa borið uppi hita og þunga starfsins á Litla-Hrauni. Það er mikill mannauður þar fólginn og mikilvægt að hlúa að honum.

Á þessum tæpum níutíu árum hefur margt gerst á Litla-Hrauni eins og búast má við. Sumt dapurlegt en annað gleðilegt, já gleðilegt þegar fangar hafa séð að sér og ákveðið að snúa við blaðinu og hefja gott og farsælt líf. Sömuleiðis þegar jákvæð skref hafa verið stigin eins og þegar meðferðardeild tók til starfa í fangelsinu.

En þrátt fyrir allt er skyldugt að minnast þessara tímamóta og íhuga um leið stöðu fangelsismála í landinu. Finna nýjar og hagkvæmar leiðir í tengslum við afplánun. Alltaf má líka gera betur í þessum efnum sem öðrum.

Og svona í lokin: Hví ekki að skapa þá venju að efna til málþings um fangelsismál ætíð hinn 8. mars ár hvert? Byrja á næsta ári þegar 90 ár verða liðin frá því að fyrstu dæmdu mennirnir stigu fæti sínum inn fyrir dyr Litla-Hrauns?