Þeir hafa örugglega rekið hana áfram með ofbeldi og ókvæðisorðum á sólbjörtum degi. Nú höfðu þeir fengið góða bráð í hendur og ætluðu sér svo sannarlega að nota það. Þessi vændiskona var dauðasek, staðin að glæpnum og nú skyldi hún standa frammi fyrir dómara sínum. Já, dómaranum. Meistaranum frá Nasaret sem þeim var svo illa við og vildu helst feigan. Hann olli usla í samfélagi þeirra og þeir vissu ekki hvernig taka skyldi á honum. En núna var tækifærið. Sjálf lögin buðu það að kona sem staðin væri að vændi skyldi verða grýtt. Og það var nú ekki fagur dauðdagi þegar grjótinu rigndi yfir manneskjuna þar sem hún lá magnþrota í gulum sandinum sem smám litaðist blóði hennar. Nei, það var svo sannarlega ekki fagurt. Og hvað skyldi nú mjúki meistarinn frá Nasaret, hann Jesús, segja við þessu? Ætlaði hann ekki að virða lögin? Var ekki svar hans gefið: „Auðvitað, fyrst að lög Móse segja það og þau eru okkar lög.“ Eða skyldi hann ganga í gildru þeirra og reyna að sniðganga lögin með einhverju spekihjali og þokukenndum tilvitnunum? Þá væru þeir búnir að ná honum og gætu dregið hann fyrir dómarann og lagt fram ákæru gegn honum. Líflátið svo.

Þeir drógu hana æpandi og hljóðandi á fund Jesú. Í návist hans sló kyrrð á alla. Þeir varpa mæðinni og strjúka svitann af enni sér og hagræða fötum sínum, standa beinir í baki og hver taug var þanin til hins ítrasta. Þeir voru jú komnir fram fyrir meistarann, dómarann. Eins gott að líta skikkanlega út í réttarsalnum. Nú skyldi þeim takast að fella hann. Þessi konugarmur skipti þá engu máli né heldur glæpur hennar. Þeir gátu grýtt hana strax þess vegna.

Konan seka hnipraði sig saman í sandinum og þorði ekki fyrir sitt litla líf að líta upp.

Þeir spyrja Jesú. „Lögin segja: Grýta hana, og hvað segir þú?“ Jesús horfir á angistarfulla konuna, lítur á þessa yfirspenntu menn og augu þeirra útþanin af annarlegum hvötum, ekki kærleika heldur óvild. Þessir annars ágætu menn voru á undarlegum villigötum.

Hann beygir sig niður. Kannski hafa þeir hrokkið við og haldið að hann ætlað að taka upp stein og láta hann vaða. Nei. Hann skrifar með fingrinum í sandinn. Og þetta varð svona innan sviga enn merkilegri stund fyrir vikið vegna þess að þetta er í eina skiptið sem getið er um að Jesús hafi sjálfur skrifað eitthvað – nóg átti eftir að verða skrifað um hann síðar! – og hann skrifar í sandinn. Og sandurinn rýkur í næstu vindhviðu og það sem skrifað er. Þeir lesa orðin – eða orðið. Við vitum ekki hvað hann skrifaði. Þeir vissu það.

Og svo halda þeir þjarki sínu áfram. Þykjast vera miklir lögmenn og sómakærir, vændiskonan er sem ósýnileg í sandinum fyrir framan þá. Jesús hlustar um stund og horfir síðan á þá með festu og kærleika. Segir allt í einu hátt og skýrt svo þeir hinir siðprúðu hrökkva í kút: „Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrstur steini á hana.“ Og síðan skrifar hann aftur í sandinn. Við vitum ekki hvað, en þeir lesa. Síðan dettur yfir djúp kyrrð sem ilmar af réttlæti.

Ákærendurnir læðast í burtu hver á eftir öðrum, skömmustulegir og langleitir á svip enda voru þeir afhjúpaðir eins og hverjir aðrir hræsnarar. Þeir voru nefnilega ekki eins miklar siðferðishetjur og þeir voru búnir að telja sjálfum sér trú um að þeir væru. Þeir voru þrátt fyrir allt aðeins manneskjur. Með kostum og göllum. Kveiktu á perunni að enginn þeirra gæti tekið upp fyrsta steininn og látið hann fljúga að konunni. Allir höfðu unnið eitthvað til saka og sloppið með það hvort sem það var nú smátt eða stórt.

Mjúkur sandurinn þyrlaðist upp að baki mannanna sem höfðu komið með hina seku konu á fund Jesú. Jesús segir við hana: „Hva´? Fóru þeir allir? Dæmdu þeir þig ekki?“ Hún: „Enginn, Drottinn.“ Og hann segir: „Ég dæmi þig ekki. En nú skaltu vera góð og heiðarleg manneskja. Syndga ekki framar.“              (Sjá: Jóhannesarguðspjall 8. 1.-11).