Lokuð augu en engu að síður opið. Ljósmynd/HSH

Um daginn spurði ég ungan mann sem nýkominn var í fangelsi hvar hann hefði búið. Sagðist hann hafa búið á götunni. Ég spurði hann hvað það þýddi: að búa á götunni? Væri það að þvælast á milli vina og fá að liggja á sófa eða úti í horni? Eða liggja þétt að húsvegg við loftræstingu þaðan sem hlýtt loft streymdi upp? Læðast inn í einhvern stigagang eða kjallara og kúra sig í skoti yfir nóttina?

Hann sagði þetta allt vera kunnar aðferðir. Auk þess að finna yfirgefin hús í miðbænum, brjótast inn í þau, hjúfra sig að kærustunni þegar kalt væri. Leiðirnar væru margar til að finna sér húsaskjól en allar jafn ömurlegar. Það versta væri að lífsmátinn kæmi oft illa niður á persónulegum þrifnaði þó reynt væri að sjá út ýmsar leiðir til að sinna honum til dæmis með því að fara í sturtu í sundlaugum en snúnara  væri með allt sem sneri að fataþvotti. En þetta fylgdi neyslunni og því að vera utangarðs.

Auðvitað ömurlegt líf. Og fnykur af öllu. Sál og líkama.

Tillögur

Erfiður morgunn. Ljósmynd/HSH

Nú hafa verið settar fram tillögur um bættar aðstæður utangarðsfólks og heimilislausra en þessi hópur telur nær því fjögur hundruð manns.

Það er velferðarvaktin sem leggur fram þessar tillögur. Velferðarvaktin er á vegum hins opinbera, aðila vinnumarkaðarins og ýmissa samtaka. Hún  er „óháður greiningar- og álitsgjafi“ sem gaukar tillögum að ríki og sveitarfélögum um það sem betur má fara.

Nokkur atriði eru brýnust að mati velferðarvaktarinnar. Þar er fyrst að nefna að koma upp dagdvalar-aðstöðu fyrir þennan hóp en þar gæti fólk þrifið sig, hvílt sig og fengist við einhver þægileg verkefni við hæfi o.s.frv. Þessi aðstaða yrði helst að vera miðsvæðis í borginni og opin sem lengst. Þá þarf að auðvelda fólki að komast í vímuefnameðferð. Setja á laggirnar fleiri áfangaheimili og vinna eftir hugmyndafræði sem byggir á því að fyrsta skrefið til nýs lífs sé að hafa húsnæði (housing first), sem kalla mætti bara húsnæði númer eitt.

Á grundvelli þessar tillagna hvetur velferðarnefndin yfirvöld til þess að koma á fót starfshópi sem kafar ofan í málin með því markmiði að „aðstæður utangarðsfólks verði bættar.“ Starfshópurinn þarf að vinna hratt og örugglega svo málið sofni ekki.

Í lokin er svo hnykkt á því að hvort tveggja ríki og sveitarfélög verði að vinna saman í þessum málaflokki, finna lausnir og bera ábyrgð og: „Ekkert sveitarfélag er stikkfrí í því sambandi.“ Þetta er lykilatriði: allir bera ábyrgð á hinum minnstu bræðrum og systrum hvort sem þau eru að vafra um í Garðabæ  eða Reykjavík. Skráð á Akureyri eða Selfossi.

Þá verði og leitað ráða hjá þeim frjálsu félagasamtökum sem hafa sinnt þessum málaflokki.

Gott er að þessar tillögur koma upp í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga. Nú er mikilvægt að vekja athygli á þeim þegar frambjóðendur leita eftir vinnu hjá háttvirtum kjósendum.

Tillögur velferðarvaktarinnar má finna hér.