Nokkur mál hafa komið fram á yfirstandandi Alþingi sem snerta fangelsi og afplánun dóma.

Heilbrigðisþjónusta í fangelsum

Rimlaður gluggi út í frelsið – ljósmynd: HSH

Fyrst skal bent á fyrirspurn til heilbrigðisráðherra og fjallaði um heilbrigðisþjónustu í fangelsum. Svar ráðherra var nokkuð ítarlegt og í sjálfu sér tæmandi og þarflaust að rekja í smáatriðum en það má lesa með því að skoða meðfylgjandi tengil.

Gott er fyrir fanga og starfsfólk fangelsa að renna yfir þessi svör til fróðleiks og til að geta svarað eftir atvikum fyrirspurnum fanga og annarra um það hvernig málum þessum sé háttað.

Eitt skal þó dregið fram til íhugunar. Í svari ráðherra kemur fram að Heilbrigðisstofnun Suðurlands fái fjárveitingu vegna stöðu geðlæknis en hana hefur ekki tekist að manna undanfarin ár. Það er auðvitað hið versta mál að ekki hafi tekist að ráða geðlækni til að sinna föngum á Litla-Hrauni og Sogni. Í svari ráðherra kemur og fram að fangar fái þjónustu á göngudeildum sjúkrahúsanna ef læknar óska þess. Þá er sá möguleiki fyrir hendi að vísa föngum til geðlækna sem stunda einkarekstur og koma Sjúkratryggingar Íslands þar við sögu. Orðrétt segir ráðherra í þessu sambandi eftirfarandi og er það umhugsunarvert:

„Fangar, eins og aðrir þjóðfélagsþegnar, eru lagðir inn á geðdeild þegar læknar telja andlegt ástand þeirra gefa tilefni til þess.“ 

Þá skal minnt á að von er á skýrslu Ríkisendurskoðunar um heilbrigðismál fanga. Ríkisendurskoðun hefur talið að almenn heilbrigðisþjónusta við fanga sé viðunandi en að sem fyrsti þurfi að ljúka mótun heildarstefnu í málefnum geðsjúkra, fatlaðra og aldraðra dómþola. Sjá um það hér. 

Fróðlegt verður að sjá þessa skýrslu en henni verður skilað fyrst til Alþingis.

Sagt verður frá skýrslunni á þessum vef þegar hún kemur út.

Sakakostnaður

Sumir fangar munu aldrei geta greitt sakakostnað – ljósmynd: HSH

Þá skal þess getið að í marsmánuði var samþykkt á Alþingi lagabreyting um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögum um fullnustu refsinga (sakarkostnaður). Þessi breyting kom til vegna mistaka við afgreiðslu laga. Kjarninn í þessu sem snertir fanga er að liggi það ljóst fyrir að sakfelldur maður geti með engu mótið staðið straum af sakarkostnaði sem honum hefur gert að greiða þá eigi að falla frá kröfu á hendur honum um að greiða þennan kostnað.

Það hefur oft vakið furðu hve mikill sakakostnaður er og sér í lagi þegar um alvarleg afbrot er að ræða. Vissulega krefjast slík mál mikillar vinnu og oft sérhæfðrar – því fylgir kostnaður að sjálfsögðu. Mikilvægt er að fara vel ofan í öll mál þegar verið er að grafast fyrir um rétt og rangt. Í mörgum tilvikum er það hins vegar dagljóst að sakamaðurinn er öreigi þegar hann kemur inn til afplánunar og mun aldrei geta unnið upp í sakakostnað þegar hann er orðinn frjáls maður. Hann er í raun gjaldþrota maður og það er lítt fallið til betrunar hvorki í upphafi né lok afplánunar. Í sumum tilvikum hefur dæmdur sakakostnaður bæði fyrir héraðsdómi og hæstarétti vakið undrun og margir hafa spurt hverjir hafi eftirlit með því reikningshaldi en dómarar virðast samþykkja alla reikninga möglunarlaust. Ríkið borgar brúsann í æri mörgum tilvikum. Spyrja má hvort lögmenn standi hugsanlega frammi fyrir svokölluðum freistnivanda hvað þetta snertir þegar þeir verja sakborninga fyrir dómi eða hvort farið er eftir einhverjum ákveðnum verklagsreglum í sambandi við reikningshald við vörn og sókn – og reikningar síðan lagðir fyrir dóminn til samþykktar eða synjunar.

Tengill á þessi lög og nefndarálit.

Eftirlit með þeim sem brjóta kynferðislega gegn börnum

Sett í forgang að vernda börnin – ljósmynd: HSH

Lagt hefur verið fram frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum og almennum hegningarlögum.

Mál þetta hefur vakið nokkra athygli en það lýtur m.a. að hertu eftirliti með þeim er brjóta kynferðislega gegn börnum. Verði málið samþykkt getur dómari gripið til nokkurra öryggisráðstafana gagnvart þeim er brjóta kynferðislega gegn börnum. Hann getur skikkað brotamanninn til meðferðar, til að mæta í skipuleg viðtöl hjá félagsþjónustu, kveðið á um eftirlit með internetnotkun viðkomandi sem og notkun á samskiptamiðlum, krafist þess að brotamaður haldi sig frá áfengi og fíkniefnum, og að eftirlit verði haft með heimili hans sem og að bann verði lagt á við búsetu hans meðal barna. Sé þessum fyrirmælum ekki hlýtt getur legið við þeim allt að tveggja ára fangelsi.

Eflaust á eftir að ræða þetta mál ítarlega og á því eru margar hliðar. Kjarni þess er vissulega mjög mikilvægur og er sá að gæta að hagsmunum barna og að koma í veg fyrir að gegn þeim sé brotið. Sem og að veita mönnum sem glíma við barnagirnd aðhald og aðstoð til að vinna á þeirri ónáttúru.

Sjá tengil.

Aukin sálfræðiþjónusta

Hugur margra fanga er þungur og aukin sálfræðiþjónusta getur bætt hag þeirra – ljósmynd: HSH

Þá hefur verið lögð fram þingsályktunartillaga um stóraukna sálfræðiþjónustu í fangelsum. Lagt er til að starfsstöðvar sálfræðinga verði í öllum fangelsum landsins. Sálfræðingar vinna mikilvæg störf innan fangelsa sem utan og ljóst að eins og sakir standa geta þeir ekki sinnt öllum þeim málum sem upp koma og eru mörg hver afar vandasöm og tímafrek. Hér skal til dæmis nefnd meðferð þeirra manna sem brjóta kynferðislega gegn börnum.

Einnig skal á það bent að margir fangaverðir standa sig vel sem hversdagslegir sálfræðingar og hafa innsýn og manngæsku sem nýtist föngum vel. Koma mætti á fót stuðningsnámskeiðum við fangaverði þar sem áhersla væri lögð á viðtalstækni sem kæmi að góðum notum hjá þeim í starfi. Fangaverðir eru í fremstu víglínu innan fangelsa – ef svo má segja – og þekkja fangana og vanda þeirra býsna vel.

Í þessu sambandi má og nefna að það væri líka þjóðráð að ráða tómstunda-og félagsmálafulltrúa í fangelsin. Slíkur fulltrúi gæti skipulagt heilbrigt félagslíf meðal fanga og veitt því forystu. Dæmi eru um að þess háttar fulltrúar hafi verið ráðnir hjá ýmsum félagasamtökum og unnið mjög gott starf.

Sjá um þessa þingsályktunartillögu hér.

Samfélagsþjónusta ungra brotamanna

Samfélagsþjónusta hjálpar mörgum aftur út í lífið – ljósmynd: HSH

Frumvarp sem snertir samfélagsþjónustu ungra brotamanna er lagt aftur fram en það hefur ekki náð fram að ganga á Alþingi. Í stuttu máli snýst frumvarpið um dómari fái heimild til að skikka brotaþola á aldrinum 15-21 árs til að gegna samfélagsþjónustu sem bundin verði ákveðnum skilyrðum. Markmiðið er að veita ungum brotamönnum fyllra aðhald til að koma í veg fyrir að þeir flækist í ríkara mæli í vef afbrota. Hugsunin með þessu frumvarpi er sú að nýta samfélagsþjónustuna þegar skilorðsbundinn dómur hefur ekki náð að snúa viðkomandi af braut afbrota. Bent er á uppeldislegt gildi samfélagsþjónustunnar sem geti hugsanlega leitt ungt fólk af glæpabraut.

Í greinargerðinni kemur fram að ekki stendur til að taka af Fangelsismálastofnun ríkisins vald sem hún hefur til að samþykkja eða synja mönnum um samfélagsþjónustu. Rætt er um ókosti sem því fylgja þegar stjórnvald hefur slíkt vald og hvort það m.a. uppfylli skilyrði stjórnarskrár um þrískiptingu ríkisvaldsins.

Sjá tengil um þetta mál.

Mikilvægt er fyrir þau öll sem koma að fangelsismálum að kynna sér hvað háttvirt Alþingi hefur um málaflokkinn að segja.