Himinninn yfir Litla-Hrauni

Þú varst einu sinni drengur,

þú varst lítill drengur.

Þú.

Það var sumardagurinn fyrsti – og þú fórst í skrúðgöngu.

Lést ekki kalt veðrið hafa áhrif á þig.

Veifaðir fána og gekkst með hinum krökkunum.

Einhver barði bumbur.

Söngur ómaði:

Nú er sumar,
gleðjist gumar;
gaman er í dag…

en þú söngst alltaf:

Gleðjist! Sumar,
gaman er í dag…

Já, sumar,

hélst að allir mismæltu sig nema þú.

Þú varst drengur og það var sumar.

Og fólkið sagði:

Gleðilegt sumar!

Fyrsti sumardagurinn en samt var kalt í lofti.

Og einn af mörgum sumardögunum sem þú hefur lifað.

Fyrsti sumardagurinn sem þú manst eftir.

Með öðru fólki.

Fólki sem leiddi þig og studdi

því að þú varst lítill drengur.

Þessar stóru og hlýju hendur sem þú misstir takið á.

Hendurnar hans pabba, mömmu, afa, ömmu, bróður og systur…

Og nú ertu hér:

Á sumardeginum fyrsta,

bak við lás og slá.

Veifar engum fána í þetta sinn.

Þitt fólk er fjarri.

Týndar hendur.

Horfnar.

Dánar.

En sumarið er fyrir utan þótt kalt sé í lofti

og hendur týndar.

Í hjarta þínu leitarðu eftir sumrinu þegar þú varst drengur.

Þú sérð djarfa fyrir því og þér líður vel.

Minningin.

Sumarið þegar þú varst lítill drengur.

Sumarminningar þínar

eru sólin í huga þínum.

Sólin bak við lás og slá.

Þú hugsar:

Fangelsið er skuggi á sumardegi mínum

og skuggar koma og fara

birta sólarinnar stýrir lífi þeirra.

Þú spyrð sjálfan þig á sumardegi

hvað stjórni þér.

 

Þú varst lítill drengur og það var sumar.

Veifaðir fána.

Langir skugga féllu svo á litla drenginn

þegar hann óx úr grasi

og missti stjórn á litla drengnum.

Og sumrin hurfu hvert af öðru

og þú hættir að veifa fána.

Hönd þín krepptist um annað

og sál þín fölnaði.

Sál litla drengsins hvarf öllum sjónum.

Fólkið sem hélt í hönd þína

þegar þú varst lítill drengur á sumardeginum fyrsta

sat í tárvotum skugga

og saknaðir drengsins litla.

Saknaðir sumranna með honum.

En mundu:

…þeir sem vona á Drottin fá nýjan kraft,
þeir fljúga upp á vængjum sem ernir,
þeir hlaupa og lýjast ekki,
þeir ganga og þreytast ekki. (Jes. 40.31).

 

Spurðu um litla drenginn í hjarta þínu;

settu von þína á höfund sumarsins

og fljúgðu sem örn.

Gakktu með honum í sumri hversdagsins.

Haltu í styrka hönd hans.

Sumarhönd lífsins.

Þú átt þar heima,

lítill drengur í skrúðgöngu með fána

og bros sumarsins í augunum.

Bros framtíðar fjarri öllum

lásum og slám heimsins.

 

(Hugleiðing flutt 19. apríl, sumardaginn fyrsta, við sumarstund á Litla-Hrauni).