Þekkingin gerir lífið litríkara!

Nútímasamfélag setur hvers kyns menntun í öndvegi. Öllum á að standa til boða að afla sér menntunar sem er við hæfi hvers og eins. Og allir geta lært eitthvað sér til gagns og yndisauka. Tilboð um námskeið og skóla berast í stríðum straumi – valið getur oft reynst erfitt. Sumir kjósa einfaldlega að læra í lífsins skóla það sem er nytsamlegt og hollt.

Mikilvægt er að kunna skil á þeim takmörkunum sem öll menntun hefur. Þekkingu er hægt að nota til góðs og ills. Oftast er hún notuð til gæfu. En með þekkingu er líka hægt að valda tjóni í ógáti. Enda þótt einhver hafi mikla þekkingu á einu sviði þá getur viðkomandi verið fákunnandi á öðru. Það er menntun að vita um þá fákunnáttu. Enginn getur kunnað allt, eins og sagt er við börnin.

Hér er lítil dæmisaga um menntun. Sagan á að hafa gerst á Indlandi fyrir margt löngu:

Fjórir konungssynir ræddu sín á milli í hverju þeir skyldu ná sem mestri færni. Þeir sögðu hver við annan: „Nú skulum við skunda út í veröldina og afla okkur sem mestrar kunnáttu í því sem að gagni kann að koma.“ Þetta ákváðu bræðurnir fjórir og einnig að hittast á tilteknum stað þegar hæfilegur tími væri liðinn frá því að þeir skildu hver við annan og fóru út í heiminn. Síðan héldu þeir af stað, hver í sína áttina.

Tíminn leið og nú kom að því að bræðurnir fjórir skyldu hittast á þeim stað sem þeir höfðu komið sér saman um. Bræðurnir  spurðu hvern annan hvað þeir hefðu lært á þessum tíma. „Ég hef náð tökum á þeirri þekkingu sem gerir mér fært að klæða hvaða bein sem er því holdi sem það áður hafði,“ sagði sá fyrsti. Annar bróðirinn sagðist hafa aflað sér þeirrar þekkingar sem gerði honum fært að setja húð og hár á það hold sem klætt hefði verið hvaða beini sem væri. Þriðji bróðirinn sagðist hafa aflað sér þeirrar þekkingar sem gerði honum fært að kalla fram alla útlimi þeirrar skepnu sem borið hefði það bein sem klætt hefði verið holdi og komin væri á það húð og hár. „Ég hef aflað mér þeirrar þekkingar sem gerir mér fært að hleypa lífi í hvaða þá skepnu sem hefur borið það bein sem klætt var holdi, hulið húð og hári, og komið í útlimi alla,“ sagði fjórði bróðirinn.

Þessu næst héldu konungssynirnir fjórir inn í skóg til þess að finna eitthvert bein svo þeir gætu sýnt fram á þekkingu sína. Örlögin höguðu því svo til að beinið sem þeir fundu var úr ljóni. En það vissu þeir ekki. Sá fyrsti kom holdi á beinið, annar setti á það húð og hár, sá fjórði bætti útlimum á svo úr varð skepna. Ljón. Sá fjórði hleypti lífi í ljónið. Bræðurnir horfðu hrifnir á afrakstur þekkingar sinnar. Ljónið hristi makka sinn og öskraði. Beraði hvassar tennur sínar og brýndi klærnar. Það tók undir sig stökk og reif í sig konungssynina fjóra sem höfðu skapað það. Síðan hvarf það inn í dimman frumskóginn án þess að líta aftur.

Nú mætti ætla að þessi saga væri sögð til að fæla háttvirta lesendur frá því að afla sér menntunar eða sértækrar þekkingar á þessu eða hinu sviðinu. Hún segi að menntun sé stórhættuleg – flan út í opinn dauðann. En svo er reyndar ekki. Sagan dregur fram að mikilvægt er að nota þekkingu sína til góðs og kunna skil á henni sjálfri. Menntun er nefnilega tæki eins og fram kemur í þessari litlu indversku dæmisögu. Öll getum við verið konungssynirnir fjórir og státað okkur af því að hafa krækt í þekkingu sem er göldrum líkust. Þá menntun getum við notað á ýmsa vegu. Til góðs og ills. Sagan hvetur okkur til að nota þekkingu okkar til góðs.

Konungssynirnir fjórir urðu reyndar ekki fórnarlömb þekkingar sinnar heldur vanþekkingar sinnar. Þeir gleymdu að spyrja grundvallarspurningar: Hvað skepnu tilheyrir þetta bein? Auðvitað hefði farið öðruvísi ef beinið hefði verið af kálfi eða lambi.

Á nýju sumri sem endranær eiga menn að spyrja grundvallarspurninga sem snerta þá sjálfa og samfélagið. Hvað menntun íklæði ég þá beinagrind sem heldur höfuðkúpu minni uppi?