Hvað er það besta í lífi okkar?

Fyrir nokkru ruddi einn fanginn á Hrauninu út úr sér fyrstu tuttugu versum Jobsbókar eða svo. Þetta var í kaffihléi á trésmíðarverkstæðinu og spurði ég hann hvernig á því stæði að hann kynni þetta og lét út mér harðari útgáfuna af hver bröndóttur eins og skáldið sagði því annað hefði ekki hæft stað og stund. Hafði slæðst á samkomur hjá ýmsum trúfélögum, svaraði hann að bragði. Og þeir höfðu legið um hríð í þessum texta í pælingum sínum um sekt og sakleysi. Síðan skaut hann versi og versi að í samtalinu til að hnykkja á upprifjun sinni. Mér lék forvitni á að vita hversu rétt hann færi með og greip því símann og opnaði Biblíuappið. Notaði tækifærið og kynnti þá nýjung fyrir honum sem hann hafði vitaskuld ekki hugmynd um. Hann var ekkert nema augu og eyru við þá kynningu. Síðan bað ég hann um að fara aftur með þulu sína og bar ég saman við textann. Það var furðu nákvæmt hjá stráksa og tókum við stutt tal um Job og félaga.

Með sjálfum mér spratt sú hugsun upp að líta við tækifæri inn til Jobs og rifja kallinn ögn upp – og þó ekki nema bara  til að stinga nefinu ofan í þennan forna og magnaða trúarlega texta. Tækifærið kom síðan fyrir nokkru á heitum degi í seigfljótandi lestarferð frá Þýskalandi til Kaupmannahafnar.

Appið er snilld

Áður en lengra er haldið skal tekið fram að Biblíuappið er hrein og klár snilld. Þau sem undirbjuggu það og komu íslenska textanum þar fyrir eiga miklar þakkir skyldar. Það er bráðhentugt og letur skýrt og gott – auk þess er hægt að skipta um leturgerð ef vill. Allt viðmót er að auki hið þægilegasta. Þetta er nútímaleg leið og ætti að nýtast ungu áhugasömu fólk sem og öllum áhugasömum af eldri gerðinni. Biblían í símanum er handhæg eins og gefur að skilja og umfram allt umhverfisvæn! Enn og aftur: kærar þakkir fyrir.

Sekt og sakleysi

Það er stundum sagt með kankvísum svip að allir þeir sem eru í fangelsi séu saklausir. Víst er að margur fanginn telur sig vera saklausan fyrir það sem hann afplánar. Í það minnsta að dómur hans sé þyngri en hann hefði mátt vera fyrir drýgðan glæp. En þeir fangar finnast líka sem telja dóminn réttan, una við hann, og segja hann sér rétt mátulegan. Þetta viðhorf breytir því ekki að fanginn horfir út um hina ósýnilegu rimla fangelsisins. Hann er frelsissviptur. Hversu saklaus sem hann kann að vera í hjarta sínu. Hvort sem hann er nú ótíndur morðingi eða bankmaður með klofinn skjöld.

Í Jobsbók er meðal annars tekist á um sekt og sakleysi. Hinn sómakæri og auðugi Job sem ekki mátti vamm sitt vita gengur í gegnum þvílíkar hörmungar að orð fá þeim ekki lýst. Ógæfunni er gefið skotleyfi á hann. Dygðugt líferni og mjúkur auður reyndust lítil vörn andspænis ógnum lífsins, sjúkdómum, dauða og þjáningum. Ekki nema von að hann spyrði hví þessar þrautir væru lagðar fyrir hann ef kennisetningar trúarinnar stæðust enn – sumsé að sá er lyti skapara sínum í smáu sem stóru væri sæmilega öruggur í sínum ranni. Hann hafði ekkert gert af sér eftir því sem hann best vissi. Var saklaus eins og strákarnir á Hrauninu. Og hann hélt sakleysi sínu fram með kröftugum hætti.

Fjölskylduboð

Segja má að stefnumótun þrautargöngu Jobs hafi fæðst í einhvers konar fjölskylduboði – eða bara á feðgafundi – á vallendi himinsins samkvæmt hinum trúarlega texta. Nokkrir piltar voru þar á hjali við föður sinn um dag og veg. Hafði einn þeirra nafngreindur verið úti að rúnta og því spurði faðirinn (kannski með ljóma í augum?) hvort stráksi hefði á flakki sínu veitt athygli framúrskarandi líferni Jobs nokkurs, hins mjög svo ráðvanda manns er sneyddi hjá öllu illu. Eða var hann kannski fullstoltur af þessum fulltrúa sínum og ræsti öfundargenið hjá náunganum? Hvílík gersemi hlyti annars sá maður að vera sem líkur væri Job. Einn sonanna var sérdeilislega virkur í athugasemdum, reyndar vel nafngreindur, og sá svosem ekki ástæðu til að setja neinn broskall við orð föður síns. Læddi að ögn höggormslegri athugasemd til að lækka vísitölu siðferðisins. Vandað líferni Jobs væri einfaldlega  sprottið upp af því að faðir hins virka í athugasemdum ofverndaði veraldlegt vafstur hans – hann væri í raun ríkisrekinn með vissum hætti. Frómleikinn ætti sér nú ekki dýpri rætur en sjálfselskuna þegar öllu væri á botninn hvolft. Ef  umhyggja föðurins hyrfi á braut færi frómleikinn sömu leið. Og málið dautt. En faðir hans lætur egna sig gegn Job og afhendir syninum þessum allar eigur hans, verðbréf og gullstangir, glæsivagna og sumarbústaði, og segir hann mega sprengja bankahólf hans og fasteignir.

Hinn mjög svo virki fer á stjá og allt gengur eftir. Veraldlegur hagfótur Jobs fýkur á haf út. En hann sendi ekki sveit vaskra lögfræðinga af stofu með einföldu latnesku heiti til að þæfa málið í áratug eða svo heldur reis úr huga hans bæn eða öllu heldur trúarjátning sem orðin er sígild fyrir löngu:

„Nakinn kom ég af móðurskauti
og nakinn hverf ég þangað aftur,
Drottinn gaf og Drottinn tók,
lofað veri nafn Drottins.“         
(Job 1.21)

Það var svo í öðru tilgreindu fjölskylduboði sem hinn virki í athugasemdum skaut því fram að nú þyrfti að herða á stefnumótuninni. Veraldlegur auður væri nú kannski bara léttvægur fundinn í augum hins ráðvanda Jobs og menn sennilega vanir ýmsum bröttum dýfum í kauphöll aldanna. Sennilega gömul sannindi sem hann dregur upp er af vörum hans falla orðin: „Nær er skinnið en skyrtan.“ (Job 2.4). Allt muni menn nú gefa fyrir líf sitt. Síðan fær hinn málglaði sonur örlög Jobs í hendur sínar með því skilyrði að hann gangi ekki frá kallinum dauðum.

Enda var hörmungarsverðið látið dynja á Job garminum og skar sárt. Hann er síðan hvattur af nafnlausri eiginkonu sinni til að formæla  skapara sínum og deyja til að binda endi þjáningar sínar. Köld eru kvenna ráð, sagði nú Flosi Þórðarson frá Svínafelli þá ekkjan Hildigunnur Starkaðardóttir jós skikkjublóði eiginmanns síns, Hvítanesgoðans, yfir hann; varð Svínafellsbóndinn við það atvik ýmist rauður í andliti sem blóð, stundum fölur sem gras og þá blár sem hel. Engum sögum fer af litverptu andliti Jobs okkar. Hann var bara staðfastur sem fyrr og svarar áskoruninni svo: „Ættum við að þiggja það sem er gott frá Guði en ekki það sem er illt?“  (Job 2.10). Gott og illt verður hvort tveggja á vegi mannsins í heiminum. Sekt og sakleysi. Líf mannsins er ofið úr ýmsum þráðum, sterkum og veikum. Trosnuðum og hörðum. Skyldu nú ekki guðsbörnin bara þrífast best á misjöfnu eins og önnur börn?

Vinur er sá er til vamms segir

Að sjálfsögðu var Job ekki vinalaus maður. Þeir sóttu hann nokkrir heim í þrengingum hans og vildu auðsýna samúð og hugga hann. Þeir voru jafnframt handvissir um að vinur þeirra hefði nú þrátt fyrir allt ekki verið eins ráðvandur og hann sjálfur vildi vera láta sem og húsbóndinn á Efrivöllum. Þessir vinir voru spakir að viti og báru auðvitað hag Jobs fyrir brjósti. Á köflum voru þeir þó full djarfir í fullyrðingum sínum um skaparann og fengu síðar á baukinn fyrir (Job 42.7n).

Upp hefst mikið samtal. Skáldlegt og kröftugt í anda meistara Shakespears – sem hefur örugglega lært eitt og annað af þessum texta. Þráðurinn í samtalinu var í raun: „Hvað segir þú tíðinda eða hví er öx þín blóðug?“ Vinirnir töldu víst að einhver hervirki hefði Job unnið en hann sjálfur sá ekkert blóð. Hafði ekkert gert af sér. Hann var kurteis maður og hlýddi á ræður þeirra sem flutu af vörum þeirra sem væru þeir skáld og listamenn. Hann svarar þeim lengi vel en svo kemur til þeirrar sögu að mælirinn fyllist og Job segir:

„Ég hef heyrt margt þessu líkt,
þér eruð þreytandi huggarar, allir sem einn.“   
(Job 16.2).

Þetta eru viðbrögð sem sálusorgarinn vill helst ekki heyra og fallast kannski hendur hversu raunagóður sem hann kann nú að vera, jafnvel meðvirkur, vinsæll, spakvitur, öflugur skemmtikraftur að eigin áliti og með drjúga endurmenntunarslagsíðu. Og kannski ættu sálusorgararnir að spyrja sig oftar hvort þeir geti verið óafvitandi þreytandi á köflum og ættu því að gá sömuleiðis að sér í leiðinni? Merkur prófessor og gegn í guðfræðideildinni sagði á sínum tíma að það sem góður sálusorgari þyrfti fyrst og fremst að kunna  væri „að halda kjafti.“

Skilningsleysi mannsins

Þegar vinum Jobs mistekst að sannfæra hann um ískyggileg sakarefni hans sem kveikt hafi eld ógæfu lífsins stígur fram á sviðið ungur og sprækur maður – sennilega upprennandi eða efnilegur, eins og sagt er á góðum stundum – og vel meint! Reiði blossar í honum vegna slælegrar framgöngu þessara gömlu vina Jobs sem höfðu ekki roð við kallinum. Þrátt fyrir æskuþrekið og orðgnóttina hefur hann ekki heldur erindi sem erfiði. En hann kemst sennilega að kjarna málsins með orðum sínum: „Guð er meiri en vér getum skilið.“ (Job 36.26).

Síðan hverfur hann úr sögunni eftir mikil ræðuhöld og innihaldsrík þar sem mikil viska er dregin saman úr ýmsum áttum. Þessi ungi vitringur fær ekki einu sinni þau stöðluðu eftirmæli fornsagna íslenskra: „…er hann nú úr sögu þessari.“

En síðan kemur sjálfur skaparinn inn á sviðið og leikurinn snýst heldur betur við. Það eru meira en þáttaskil svo ekki sé meira sagt – og tekið rækilega í hnakkadrambið á persónum og leikendum – og að ógleymdum lesendum. Og hinn trúarlegi texti nötrar sem og lek sálarker lesandans.

Job viðurkennir að hann hafi talað af skilningsleysi og tekur orð sín aftur. Iðrast af einlægu hjarta. Og lesandinn tekur kannski undir. Eða hvað?

Allt fer vel að lokum eins og í öllum góðum sögum sem skilja eitthvað eftir til að hugsa um. Fyrir bænastað Jobs var vinum hans þyrmt og sjálfur fékk hann allt það tvöfalt sem hann hafði átt. Innan sviga má benda á kraft bænarinnar þar sem Job var annars vegar. Sögulokin eru í raun og veru upprisa til lífs.

Spurningar og svörin þín

Það er ekki nóg að dýpstu spurningar veraldar sé að finna í Jobsbók heldur vaknar og hver spurningin á fætur annarri í huga hins hversdagslega lesanda af lestrinum í Biblíuappinu á ferð um ókunna lestarteina.

Hvort maðurinn ofmetnist af verkum sínum og telji þau öll góð? Var Job blindur á sjálfan sig? Var drambið að fella hann? Ætlaði hann að kaupa gæfu sína með góðum verkum? Eða var glæpur hans að telja sig vera saklausan, réttlátan, fullkominn einstakling?

Hversu saklaus var Job? Var hann hinn saklausi sem þjáðist? Höfðu þjáningar hans æðri tilgang? Ekki svarað með ótvíræðum hætti enda kannski ekki á færi manna þó þeir þeir margir svarir hiklaust án þess að blikna. Ýmsir möguleikar eru fyrir hendi og vekja þá upp umræðuna um hvers vegna almættið leyfi yfir höfuð þjáningu hins saklausa – og sömuleiðis þjáninguna yfirleitt. Er ekki þjáning heimsins sönnun þess að Guð er ekki til? Í það minnsta er hann ekki kærleiksríkur – eða hvað? Hér er hvorki meira né minna á ferð en hið sístæða stef hvort hægt sé að réttlæta tilvist góðs Guðs andspænis illsku veraldar. Já, er Guð réttlátur?

Og er þetta fótatak Krists í bók Jobs? Fyllt af von:

„Ég veit að lausnari minn lifir
og hann mun síðastur ganga fram á foldu.“  (Job 19.25).

Enda þótt maðurinn skilji ekki Guð þá þarf skilningsleysi hans ekki að kæfa viðleitni hans til góðs.

Engin einföld svör liggja í loftinu. Hvorki spök né djúp úr visku fræðanna eða snjöll og grípandi úr smiðju auglýsingastofanna og almannatenglanna. Þess vegna kallar einn lestur á annan svo verkið lifni enn betur í huga lesandans. Og hefst þá hið mjög svo merkilega samspil verks og lesanda sem er heimur út af fyrir sig. Þar er stigið á svið og rætt við Job og félaga í hléinu eða að leik loknum um verkið og merkingu þess. Og næsta uppfærsla kannski plönuð hjá áhugamannafélaginu í uppsveitum andans?

Og svona í blálokin því lestin rennur brátt í hlað í kóngsins Kaupmannahöfn þar sem sólin skín en heima á Fróni spyrja menn hvassyrtir á votviðrasömu sumri: hvort regnið eigi sér föður eða ekki. Svarið er að finna í Jobsbók!

Já, Biblíuappið er dálítið töfraleikhús hversdagsins í símanum okkar sem ber enn og aftur að þakka fyrir.