Gistiskýlið

Á vegi lífsins brast einhver strengur sem ekki átti að bresta. En hann brast og við blasti öngþveiti sem ekki var hægt að lesa neitt út úr. Í það minnsta átti hann í mesta basli með það.

Hvergi samastaður

Þau eru eins og annað fólk. Ólíkt hvert öðru. Með drauma og þrár. Væntingar og vonbrigði. Öll halda þau svo út í samfélagið að lokinni fangavist sem hefur verið svona upp og ofan. Sum fara heim þar sem fjölskylda og vinir bíða. Börn og hversdagslegt amstur. Þeim er fagnað – en kannski ekki alltaf. Önnur halda út á óvissubraut. Hafa hvergi samastað nema götuna, gistiskýlið, fá að liggja inni hjá vinum og kunningjum nótt og nótt. Gestir. Eru á hrakhólum. Búa á jaðrinum fræga, eru utangarðs. Ekki hefðbundnir þátttakendur í samfélaginu. Í neyslu og hernaði gegnum sjálfum sér og oft öðrum. Eða þau fórnarlömb illvígra geðraskana sem tóku frá þeim hversdagslegt líf hins venjulega fólks.

Sitja á bekk á Austurvelli og horfa á prúðbúið og glaðvært fólkið streyma hjá. Og ferðamennina sem eru eins og mý á mykjuskán og hugsa með sjálfum sér að alls staðar sé götufólkið eins hvort heldur í Kaupmannahöfn, London eða í henni Reykjavík. Horfa í kringum sig á framandi umhverfi og eiga þar heima en þó ekki. Það er óljóst hvar næsti næturstaður kann að vera. Það getur oltið á ýmsu. Og ef í harðbakka slær er hægt að falbjóða líkama sinn einhverjum sem á fallega málaðar stofur. Kapítalisminn hefur jú sigrað heiminn.

Lífið í heimilisleysinu er þjakandi og svik við hvert fótmál. Allir svíkja alla og sjálft kerfið enginn eftirbátur í því efni að margra sögn.

Bekkurinn stendur alltaf fyrir sínu

Regnsumar á bekknum

Það er boðað til neyðarfundar í ráðhúsinu. Hann frétti af því fyrir tilviljun morgun einn og nýkominn á bekkinn á Austurvelli. Umræðuefnið var eitthvert álit um málefni þeirra sem eru á hversdagslegum vergangi í borginni við sundin blá. Kunningi hans lagði fyrir hann álitið þar sem hann sat á bekknum og velti fyrir sér hvort þessi þunglyndislegi dagur færi eins og allir hinir. Í hinn margfræga súg. Hann hafði eignað sér þennan bekk fyrir löngu og aldrei upplifað annað eins regnsumar á honum og nú. Kumraði með sjálfum sér að hann gæti þó lagt það fram í hina eilífu veðurumræðu þeirra sem voru á flótta til sólarlanda.  Grómugar hendur hans flettu þessum blöðum sem kunninginn hafði skilið eftir með þeim orðum að hann hefði ekki annað þarfara að gera en að renna yfir og segja sitt álit. Honum væri ekki alls varnað, það væri vitað.

Álit umboðsmanns vegið og metið á bekknum

Hann muldraði með sjálfum sér fyrstu orðin á blöðunum: Mál nr. 9164/2016. Sá ekki betur en að þarna væri sjálfur umboðsmaður Alþingis að fjalla um hann – eða þá einstaklinga sem falla undir hugtakið „utangarðsfólk.“ Engin smáræðisfyrirsögn: „…Húsnæðisvandi utangarðsfólks. Stjórnarskrá. Mannréttindasáttmáli Evrópu. Málshraði. Skýrleiki reglna. Frumkvæðisathugun.“  Honum fannst sem hér væri skotið úr öllum fallstykkjum í einu svo bekkurinn nötraði á Austurvelli og reykjarkófið allt um kring. Eitt andartak fannst honum sem bylting væri í aðsigi. Umboðsmaður var hans maður. Hann leit upp en sá ekki betur en allt væri með kyrrum kjörum á þessu morgni á bekknum. Kóróna Kristjáns IX var meira að segja enn á sínum stað á Alþingishúsinu. Hann rýndi í álitið. Kinkaði kolli með sjálfum sér þegar hann las að þarna yrði fjallað um hvernig sveitarfélögin ræktu þá skyldu sína að veita þeim húsaskjól sem ekki réðu sjálfir við það. Þetta væri fólk sem byggi við vanda í líkingu við marghöfða skrímsli og sjaldnast væri vitað hvar ætti að byrja til að leysa málin – hann kannaðist mæta vel við það. Í huga sínum tók hann hjartanlega undir orð vinar síns umboðsmannsins að ekki væri hægt að sjá annað en að vandinn væri „almennur og viðvarandi“ meðal utangarðsfólks og þeirra sem glímdu við „fjölþættan vanda.“ Umboðsmanni fannst eins og honum á bekknum reglurnar vera þokukenndar hjá borginni í þessum málum. Sjálfur hafði hann enda oft gefist snarlega upp þegar skilningsríkir félagsráðgjafarnir þuldu reglurnar eins og dularfullar galdraþulur. Nú sá hann ekki betur en að umboðsmaður vildi fara fram á „einstaklingsbundið mat og rannsókn á aðstæðum viðkomandi.“ Hann lyfti nú efasemdarbrúnum um þessi orð og fannst komið full nálægt sálarkviku hans ef hið opinbera ætti að fara að vega hann og mæla meira en það hefði nú þegar gert. En honum leist vel á þau orð umboðsmannsins að gera ýmsum toppum viðvart um þetta álit eins og félags- og jafnréttismálaráðaherra, heilbrigðisráðsherra og dómsmálaráðherra. Þetta lið þyrfti nú heldur betur að tala saman um málið en ekki vísa alltaf á næsta mann, hugsaði hann með sjálfum sér og sletti í góm.

Hann sökkti sér niður í lesturinn á bekknum á þessum morgni. Hann sá að einhver hafði farið á fund umboðsmannsins og kvartað undan því að hann fengi ekki venjulegt húsnæði hjá borginni þó hann væri á biðlistanum, búinn að vera lengi eins hann, tautaði hann með sjálfum sér, því hann væri í tómu tjóni. Hins vegar gæti hann fengið sérstakt húsnæðisúrræði. En hann vildi ekki sjá að búa í gámi – eða í smáhýsi eins og þeir kölluðu það á skrifstofunni. Hann kannaðist við þetta eftir að hann kom síðast úr afplánun og honum boðið smáhýsi sem í huga hans minnti óhugnanlega mikið á klefann á Hrauninu. Nei, hann fór á bekkinn, gisti á hótelinu Hér og þar. Stjörnulaust hótel á stjörnubjartri nótt.

Reynt að gera smáhýsin aðlaðandi

Ljóst hver er húsnæðislaus og hver ekki

Hann sá í álitinu skilgreiningu félagsmálaráðuneytisins á því að vera húsnæðislaus. Það hlaut að vera mark takandi á henni, og hann kannaðist við þetta og muldraði með sjálfum sér með eilítilli hæðni í röddinni að hann gæti nú varla orðað þetta betur: „Húsnæðislaus er sá sem ekki hefur aðgang að hefðbundnu húsnæði, hann hefur ekki húsaskjól að staðaldri á sama stað og gistir þar sem kostur er hverja nótt…“ Hann sá að umboðsmaðurinn hafði ofið inn í þetta stjórnarskrárréttindum þar sem öllum væri tryggður réttur í lögum til aðstoðar og að það væri ekki nóg að hafa orðin ein um það heldur yrðu landsins lög að koma þar og til skjalanna til að virkja þessa aðstoð. Og þessi aðstoð væri ekki bara einasta í formi þess að fá framfærslu frá féló eða örorkubætur heldur og mætti gera kröfu um aðstoð þessa sem viðundandi húsnæði með skírskotun til alþjóðlegra samninga sem hefðu ráðgefandi vægi enda þótt Mannréttindadómstóll Evrópu hefði sett á það almennan fyrirvara. Hann saup í þetta sinn hveljur  á bekknum en ekki eitthvað sterkt því þarna voru helstu höfðingjar heimsins kallaðir til ábyrgðar. Nú hlaut eitthvað að gerast.

Hann hafði verið býsna lengi í biðröðinni eftir þokkalegu húsnæði og sagði alltaf aftur og aftur að hann vildi bara frið og öryggi. En hann játaði það með sjálfum sér að hefði sparkað hreiðrinu nokkrum sinnum undan sér. Hefði fengið húsnæði sem hefði endað svo með ósköpum. Óreglan og geðið tæpa hefði tekið völdin af honum og það nokkrum sinnum. Og féló sagði við hann að húsnæði stæði honum til boða þegar að því kæmi ef hann tæki á vanda sínum. Hann var vonlaus með að koma böndum á vanda sinn. Var búinn að reyna það oftar en tölu varð á komið. Meðan hann gerði það ekki fengi hann bara hugsanlega smáhýsi eða herbergi úti í bæ. En allt tæki tíma. Eitthvað stóð þarna hjá umboðsmanni um málshraðareglu hins opinbera, eða það sem kallaðist afgreiðslutími í kaupfélaginu í gamla daga. Hann vissi svo sem að nægur var tíminn, og ekki lá honum garminum neitt á í sjálfu sér þó síst vildi hann vera í Gistiskýlinu yfir veturinn. Hann væri jú tekinn að eldast og ýmislegt sennilega farið að láta undan þó hann vissi það ekki og vildi ekki heldur vita af því.

Gistiskýli ekki í hverjum bæ

Hann var utanbæjarmaður í hjarta sínu. Fæddur og alinn upp úti á landsbyggðinni. Kunni betur við plássin í kringum Reykjavík eins og hann sagði með sjálfum sér en komst fljótt að því að þau fögnuðu honum ekkert sérstaklega þegar hann bar upp húsnæðisvandræði sín og vinnufælni, örbirgið, auðnuleysi og vesaldóm eins og afi hans hefði kallað það – nú var þetta fjölþættur vandi og hægt að taka undir það. Ekkert Gistiskýli nema í henni Reykjavík og þau hin sveitarfélögin héldu að sér höndum og ætluðu sér augljóslega ekki að opna neitt viðlíka. Hann sá að umboðsmaður benti réttilega á þetta í áliti sínum. Og í hjarta sínu vissi hann svosem að vinir hans og kunningjar í harkinu vildu vera í miðborginni, voru miðborgarrottur, þar var fjörið og fegurðin og spennan í öllu. Vonlaust væri að senda þá í athvarf upp í Breiðholt. Og Víðinesið var nú sennilega aðeins fyrir þá sem voru búnir að fá nóg af öllu, vildu kyrrð og frið og útsýni til eilífðarlandsins. Það var ekki komin sú stund hjá honum. Ekki enn.

Þakklátur umboðsmanni

Hann lagði frá sér álit umboðsmannsins. Ánægður með þetta síðasta í því að umboðsmaðurinn ætlaði að kanna á næsta ári hvernig málin hefðu farið hjá borg og ráðherrum. Nú, hann væri alveg til í að leggja umboðsmanni lið og segja frá því hvar hann væri staddur á lífsins braut, nú eða síðar. Vildi helst ganga við hjá umboðsmanni og taka í spaðann á honum og þakka fyrir að taka málið upp að eigin frumkvæði. Hann var greinilega ekki dauður úr öllum æðum. Umboðsmaðurinn var nú ekki lengra frá honum en handan við Austurvöllinn.

En kannski var best að verða sér úti um skárri föt áður en hann varpaði þakkarorði á umboðsmanninn? Og kannski að fá sér einhverja brjóstbirtu til þess að gleyma eymd sinni þessa stundina og kveða ögn djarfmannlegar í samtali sínum við umboðsmanninn.

En þetta var allt á réttri leið, hummaði hann. Enda bjartsýnn maður í eðli sínu. Og álitið bara fjandi gott.

Hér má sjá álit umboðsmanns Alþingis.

Eirskjöldur á skrifstofu umboðsmanns