Matseðill dagsins

Honum flaug fyrst í hug rammi þegar hann gekk inn í klefann. Þetta voru átta eða tíu fermetrar sem yrði einkarými hans næstu árin. Lítill gluggi fyrir enda rýmisins og loðin járnrist fyrir. Engir rimlar. Frændi hans, strákpjakkur, hafði verið mest spenntur fyrir rimlum þegar hann sagði honum frá því að fangelsi biði hans. Rimlar voru tákn fangelsis í huga þess stutta. En sýnilegir rimlar fyrir gluggum og dyrum voru horfnir úr fangelsisbyggingum til að mýkja ásýnd þeirra. Frændanum litla myndi þykja þetta súrt þegar hann segði honum frá járnrimlalausri vist sinni.

Pokinn var léttur sem hann fór með enda sögðu reglur fyrir um hvað mætti koma með. Það var svo sem ekki margt en dugði þó. Hann hafði alla tíð ekki átt mörg pör af þeim leppum sem hann notaði dags daglega. Auk þess hafði hann lesið að frítt aðgengi væri að þvottavél í boði hússins – flott tilboð sem verður seint hafnað, hugsaði hann með sér og glotti. Og ekki þyrfti hann smókinginn enda hann orðinn of lítill frá því að hann gekk í það heilaga. Nú og hjónabandið stóð stutt og var hálfgerð formleg erindisleysa þegar hann leit um hina frægu öxl sem hann hafði nú ákveðið að gera aldrei aftur heldur aðeins horfa fram á við. Vertu jákvæður, ómaði í huga hans. Þetta líður. Ekkert er alslæmt. Og nóg er nú að lesa, kannski þú farir loksins að skrifa eitthvað? Blundaði ekki annars rithöfundur í þér? Kannski fangelsið veki hann upp? Þú kynnist mörgum þarna inni og sýn þín á mannlífið þroskast. Kannski getur þú hjálpað einhverjum þarna inni enda ertu af öðru sauðahúsi en þeir – svo kippti viðkomandi út sauðahúsinu leiftursnöggt um leið og volgur roði hljóp á harðaspretti um kinn og sagði þess í stað: af öðru ætterni. En hann hugsaði sem svo að það væri ekki ónýtt að vera svarti sauðurinn í þessari líka fínu ætt – nú kominn í hús. Það var reyndar önnur saga. Draugasaga ættarinnar.

Þegar hann stóð í klefadyrum kom samfangi hans aðvífandi og sagðist vera á förum og spurði hvort hann vildi ekki eiga þetta dagatal sem hann ýtti ákveðið að honum í hinum töluðu orðum. Hann var rokinn áður en honum gafst tími til að þakka fyrir. Settist á rúmið og leit út um gluggann. Enginn var á ferli utandyra. Dagatalið lá á borðinu. Mynd af blökkudreng einhvers staðar í Afríku og hann stóð við tré og tuggði strá, umvafinn teppi og hélt á trjágrein. Í fjarska hálmkofar. Engin nettenging þarna frekar en hér, umlaði hann með sjálfum sér. Og ekkert sérstakt virtist vera á dagskrá. Kannski var þetta vinnuhlé, ekkert vissi hann um Afríku. Sjálfur taldi hann sig vera í þokkalegu stundarhléi frá þjóðfélaginu með tilvonandi veru sinni í fangelsinu.

Hann sá eitt andartak sjálfan sig í þessari Afríkumynd og festi dagatalið upp á korktöfluna í klefa sínum með hálfbrotnum prjóni. Undir myndinni var ritningarvers með smáu letri:

„Drottinn, heyr þú bæn mína, hróp mitt berist til þín. Byrg eigi auglit þitt fyrir mér þegar ég er í nauðum staddur.“ (Sálmur 102.2-3).

Trú hafði ekki svosem átt upp á pallborðið hjá honum þótt honum fyndust þessi orð geta talað til hans í þessum aðstæðum. Honum fannst hann ekki beinlínis vera í nauðum staddur en aðstæður gætu auðvitað verið skárri og hann hnykkti höfði við þessari kaldhæðnislegu hugsun sinni. Kannski myndi hann eftir allt saman leggjast í lestur á hinni helgu bók, hann bókmenntamaðurinn sjálfur? Vissi að þar var merkileg saga og heimsbókmenntir á nánast hverri síðu sem hægt var að sökkva sér ofan í án þess að trúa eða ekki. Eins og allar bókmenntir þá fjallaði þessi bók um fólk í misjöfnum aðstæðum, átök og örlög, baráttu góðs og ills, tilgang lífsins. Og þetta mikla afl sem menn nefndu ýmsum nöfnum eins og skapara, Guð og Drottin eða æðri mátt. Það skyldi nú ekki vera að hann kæmi bara með geislabaug á höfðinu eftir afplánunina? Og þá bara snöggtum skikkanlegri maður eftir betrunarvistina? Hann hló háðslega með sjálfum sér.

Hann var skyndilega truflaður í þessum tætingslegu vangaveltum sínum sem kveikt höfðu hugarhláturinn þegar einhver bankaði snöggt á klefadyrnar og reif þær síðan upp og ætlaði að láta þær jafn snarlega aftur þegar honum fannst eilítill geðveikissvipur vera yfir nýkomnum nágranna sínum en hætti við það og spurði hikandi hvort hann gæti hugsað sér að vera í matarfélagi með þeim. Í hádeginu ætluðu þeir að hafa kjúlla. Hann leit á dagatalið sitt á korktöflunni og sá að það var þriðjudagur. Kjúklingur hafði alltaf verið heima hjá honum á þriðjudögum. Þetta var bara kunnuglegur rammi eftir allt saman. En voru franskar með? Sá sem bauð honum í matarfélagið sagði að djúpsteikingarpotturinn væri brunninn yfir og nýr pottur hefði ekki sést ennþá. „Hann kemur þó áður en þú ferð,“ sagði hann og brosti. „Allt kemur einhvern veginn áður en maður fer.“

Hann settist til borðs með samföngum sínum og byrjaði að borða. Kjúllinn var bara góður og hann hrósaði matnum og þakkaði fyrir sig. Spurði hikandi hvort hann ætti ekki að elda fyrir hópinn við tækifæri og fékk þau svör að það væri nú eiginlega skylda hvers manns að sýna hvað í honum byggi þegar  að matseldinni væri komið. Allir gætu eldað eitthvað á þessari vertíð sem væri nú svona upp og ofan. Hann kæmist að því sjálfur. „En þú tekur uppvaskið núna og gengur frá. Vertu svo bara eins og heima hjá þér. Í kvöld bjóðum við upp á afganga. Við erum nýtnir menn á þessari vertíð.“