Táknmynd valdsins, skrípamynd af Eggerti Briem, sýslumanni. Mynd: Sölvi Helgason.

Margir fangar eru fullir af skammartilfinningu vegna brota sinna og vistar í fangelsi. Þeir líta á sig smáum augum, finnst sem þeir séu fyrirlitnir af samfélaginu, og í sumum tilvikum ekki litið á þá sem manneskjur. Þetta raskar hugarró þeirra iðulega og veldur sumum miklu hugarangri. Það er sömuleiðis eðlilegt að slíkar tilfinningar bæri á sér og sýnir að samviskan er ekki sofandi. Eftirsjá fylgir gjarnan þessum hugsunum og þörf eftir fyrirgefningu á því sem gert var.

Viðbrögð brotamanna hvað ofangreint snertir  eru af margvíslegum toga. Þeir sem tilheyra hópi síbrotamanna glíma sennilega eftir því sem lengra líður með öðrum hætti við þessa tilfinningu skammar heldur en þeir sem reka höfuðið kannski einu sinni á ævinni inn í fangelsi. Oftast leitast þeir við að ýta þessari tilfinningu frá sér og sannfæra sjálfa sig um að kannski skipti hún ekki máli þegar út er komið þegar öllu er á botninn hvolft. Þeir séu búnir að gera upp hina formlegu kröfu sem samfélagið lagði fyrir þá, sem sé að afplána. Fangelsið sé nú einu sinni þetta „þvottahús“ brotamanna og út komi þeir eftir mislangan tíma með þokkalega hreinan skjöld. En í huga sumra svífur skammartilfinning yfir vötnum vegna glæpsins sem framinn var. Sömuleiðis ólgar í huga þeirra sú kalda staðreynd að sitja sviptur frelsi bak við lás og slá. Þurfa svo að útskýra það fyrir vandamönnum og vinum hvernig það sé að vera í fangelsi innan um fólk sem þeir kannast kannski ekkert við. Og hvernig það sé þegar hrjúfur og harður smellur í lykli heyrist þá fangelsisdyrum er læst.

Menn hafa á öllum tímum gripið til þess að segja ekki öllum frá að þeir séu í fangelsi og af ýmsum ástæðum – skömmin kemur þar og við sögu. Það hefur verið látið fréttast að hann væri farinn á „vertíð“, „fór á síld“, hann fór í „Smuguna“ – eða „hann er að vinna í Kárahnjúkum.“ Þannig hafa ýmsir verkmiklir staðir verið tíndir til sem í hugum fólks eru nánast aðeins fyrir miklar kempur og harðduglega menn. Sennilegur hefur þessi kröfuharða fjarvist vikið all nokkuð enda allt samfélagið miklu opnara nú en áður. Þó má ekki gleyma því að vissulega hafa menn á öllum tímum á leið til afplánunar sest niður með sínu fólki og farið yfir stöðuna, átt hreinskiptin samskipti og fengið oftst nær stuðning. Það geta verið mikil umskipti á högum karls eða konu sem er á leið í fangelsi; ýmsa lausa enda sem snerta veraldleg mál þarf að hnýta og gera margvíslegar ráðstafanir. Vinnandi maður sem kallaður er til afplánunar yfirgefur oftast fjölskyldu og atvinnu – og það kemur fyrir að hann atvinnan fjúki út í hagsauga og brestir komi í fjölskylduna – og fjárhagurinn kemst í uppnám. Slíkt gerir komandi fangelsisvist enn þungbærari. Síbrotamenn hafa síður í öllum tilvikum þurft að grípa til aðgerða eins og þessara enda fer lífsstíll þeirra iðulega eftir öðrum brautum – og oftlega mjög flóknum þar sem mikil togstreita fer fram milli þess að standa sig og falla. Stundum kemur jafnvel fram að nánustu aðstandendur eru fegnir í hjarta sínu að viðkomandi síbrotajaxl sé kominn í fangelsi. Betra sé að vita af honum þar heldur en vímuðum á einhverjum glæpaslóðum. Hann  hafi þó „húsaskjól og fæði“ – og: „láti aðra í friði á meðan.“

Það kemur mörgum þægilega á óvart hve fangelsiskerfið reynir eftir bestu getu innan sinna marka að taka á móti hverjum og einum af sem mestri umhyggju, kurteisi, lipurð og festu ef með þarf. Þar gegna fangaverðir lykilstöðu. Það er hagur allra að afplánun hvers og eins gangi sem best og fanginn sé upplýstur um hvernig „kerfið“ gangi fyrir sig. Fangelsiskerfið er í eðli sínu mjög sérstakt þar sem því er ætlað lögum samkvæmt að grípa inn í líf fólks, þ.e. að sjá til þess að dæmdir menn afpláni sína refsingu, séu teknir „úr umferð“ með ýmsum hætti eins og samfélagsþjónustu og fangelsun. Þau spor sem menn eru kallaðir til að stíga bak við luktar dyr geta verið þung og valdið sálarusla.

Einn var sá frægur íslenskur brotamaður og lífskúnstner sem gerði gott úr fangelsisvist sinni og hafði sína Smugu og  Kárahnjúka. Og lét ekki minnimáttarkennd eða skammartilfinningu trufla sig enda eignuð þessi vísa:

Eg er gull og gersemi,
gimsteinn elskuríkur,
eg er djásn og dýrmæti,
drottni sjálfum líkur.

Sá var Sölvi Helgason (1820-1895), listamaður og flakkari, jafnvel heimspekingur, Sólon Íslandus, sem dæmdur var í þrælkunarvinnu og sendur til Kaupmannahafnar til að taka út refsinguna. Þegar hann kom aftur til Íslands eftir vistina ræddi hann aldrei um hana öðru vísi en svo að hann hefði verið þar sem frjáls maður. Sagði til dæmis: „Við Íslendingar höfum þetta svona og svona þegar við erum í Höfn.“ Hann talaði um vist sína einnig með eftirfarandi hætti: „Þegar ég var erlendis…“ Af þeim orðum hans mátti skilja að hann hefði farið víða um og ekki verið í þrælkunarvist. Mörg smellin tilsvör eru höfð eftir honum eins og það er kona ein spurði hvað geislabaugurinn ætti að merkja sem hann málaði gjarnan um sjálfsmynd sína, þá svaraði hann: „Ósköp spyr þú barnalega.“

(Sjá um Sölva grein Ingunnar Jónsdóttur frá Kornsá í: Eimreiðin, 29. árg. 1923, 1.-2. hefti, bls. 77 og 82).