Hundakæti – Dagbækur Ólafs Davíðssonar 1881-1884, Reykjavík 2018, bls. 99

Þessi athyglisverðu orð hér að ofan eru úr dagbók Ólafs Davíðssonar, náttúrufræðings og þjóðfræðings, Hundakæti, færslur frá árunum 1881-1884, og kom nú út fyrir jól, í umsjón Þorsteins Vilhjálmssonar, fræðimanns og þýðanda. Mál og menning gaf út. Færsluna má finna á bls. 99. Þetta er stórmerkileg dagbók sem greinir frá lífi skólapilta í Lærða skólanum, hugsunum þeirra og daglegu lífi. Einnig frá fyrstu árum Ólafs í Kaupmannahöfn. Ólafur er opinskár í dagbókum sínum og lýsir meðal annars tilfinningalífi sínu enda setur hann sér það markmið í formála dagbókarinnar að geta um „þá hita og kulda strauma sem renna um sjálfan mig, um sálu mína…“ (bls. 33).

Þess má geta að þetta er önnur útgáfa af dagbókum Ólafs Davíðssonar. Sú fyrri kom út árið 1955, með titlinum: Ég læt allt fjúka, og var hún ritskoðuð. Þessi útgáfa er ekki ritskoðuð og er allt hið ritskoðaða efni fyrri útgáfunnar skáletrað lesendum til glöggvunar.

Jákvætt viðhorf

Í þessari færslu sem myndin hér að ofan sýnir, kemur fram jákvætt viðhorf til brotamanna öndvert við hið neikvæða sem einnig er lýst; hvernig samfélagið eigi að taka á móti þeim með jákvæðum huga þegar þeir hafa lokið refsivist sinni. Sem og sú skoðun að fýsnir og girndir sem rekið hafa menn út á braut afbrota blunda í öllum mönnum.

Viðhorf til brotamanna eru að sönnu misjöfn og fer mjög eftir eðli brota þeirra sem þeir hafa framið. Segja má þegar til alls er litið að viðhorf almennings sé nú á dögum alla jafna jákvætt til flestra brotamanna. Sú hugsun er efst í huga fólks að þeir sem brotlegir hafa gerst snúi við á ógæfubraut sinni og verði nýtir þegnar með einum eða öðrum hætti að lokinni fangelsisvist. Það gengur  vissulega misjafnlega hjá brotamönnum og fer mjög svo eftir því hvaða félagslegu aðstæður bíða þeirra að lokinni fangavist. Sumir brotamenn ganga út í aðstæður sem eru viðundandi meðan aðrir hafa hvergi höfði sínu að að halla. Það er vandi samfélagsins sem er iðulega til umræðu og virðist engan enda taka.

Segja má að flestir fangar sem vilja til dæmis vinna, fái vinnu, fyrr eða síðar. Vinnuveitendur sýna nefnilega tilhliðrunarsemi svo notað sé orð Ólafs, vilja gefa mönnum tækifæri. Auðvitað eru til þeir vinnuveitendur sem krefjast þess að sakavottorð sé hreint, ekki má gleyma því. En flestir telja rétt að gefa mönnum tækifæri til að sýna sig og sanna.

Íslenskt fangelsiskerfi hefur það að markmiði að búa sakamönnum eins góð afplánunarskilyrði og frekast er unnt með tilliti til þess fjármagns sem lagt er til kerfisins. Vinna og nám er þar efst á blaði, opin úrræði eins og í fangelsunum að Sogni og Kvíabryggju, og áfangaheimili Verndar sem og eftirlitsúrræði eins og ökklabandinu. Miklu varðar að framboð náms og vinnu sé sem fjölbreytilegast – og einstaklingsmiðað. Hæfileikar þeirra sem sitja bak við lás og slá eru margvíslegir og að þeim þarf að hlúa með öflugum hætti, vekja áhuga ungra sakamanna á námi og vinnu; og hjálpa þeim til að breyta um lífsstíl. Það er gert meðal annars með tilhliðrunarsemi. Sé það gert er snöggtum líklegra að þá verði eitthvað úr bótinni svo notað sé orð Ólafs Davíðssonar.

Mæli eindregið með þessari einstöku bók!