Tilskipun konungs frá 1793:

Fangelsisminjasafni Íslands barst nú nýverið stórmerkileg og höfðingleg gjöf. Um er að ræða upprunalegt eintak af tilskipun um aðbúnað fanga og skipulag í fangelsum norsk-danska ríkisins (þ.m.t. Ísland, Færeyjar og Grænland) frá árinu 1793. Eina tukthúsið á Íslandi á þeim tíma var við Arnarhól (1771-1813) og gilti því tilskipunin hvað það snerti. Þetta er elsti „munur“ safnsins ef svo má segja. Tilkynninguna undirritaði konungurinn, Kristján VII, í Kristjánsborgarhöll hinn 5. apríl 1793 og er hún með innsigli hans, lakkinnsigli (og bréfið ekki af því tekið).

Í aðfaraorðum tilskipunarinnar kemur meðal annars fram það viðhorf að enginn sé sekur fyrr en við dómsuppkvaðningu. Skuli fangar sem bíða dóms hljóta þá meðferð sem valdi sem minnstum miska eftir því sem kostur sé. Í tilskipuninni kemur og fram að þeir skuli fá 6 skildinga í dagpeninga, fangahúsin skuli ekki vera heilsuspillandi, klefarnir þurrir og vel loftræstir. Sængur skuli vera úr ull og dýnur stoppaðar með hreinum hálmi fjórðu hverju viku. (Tilskipunin birt í: Lovsamling for Island, 6. bindi (1772-1805), bls. (100) 94-96).

Kærar þakkir til gefandans sem vill ekki láta nafns síns getið að sinni.

 

Greinar tilskipunarinnar frá 5. arpíl 1793 eru alls fimm

 

Bakhlið tilskipunarinnar er með innsigli konungsins, Kristjáns VII