Þessa  frétt mátti lesa í Morgunblaðinu hinn 8. febrúar 1976. Takið eftir að orðið vistmaður er notað yfir fanga.

Það færist hins vegar nú í vöxt að talað sé um vistmenn í stað fanga. Má vera að orðið vistmaður þyki mýkra en fangi en það er umhugsunarefni hvort það nái fyllilega merkingu frelsissviptingarinnar eða fangelsunarinnar.  Það kann að vera að oftar sé talað um vistmenn fremur en fanga þegar verið er að ræða um fanga í opnum fangelsum. Fangar eru þá vitaskuld þeir sem hýstir eru í lokuðum fangelsum.

Þá er ætíð talað um vistmenn eða jafnvel heimilismenn á áfangaheimili Verndar en ekki fanga. Oft er talað um vistmenn á dvalarheimilum og þau geta verið af ýmsum toga en þar sækja fast á orðin heimilisfólk eða heimilismenn enda náttúrlega heimilislegri!

Ólíklegt er að orðið vistmaður ryðji hinu gamla orði fangi úr vegi. Það gerist í það minnsta ekki meðan almennt er talað um fangelsi og fangelsiskerfi. Þó má minna á að hér fyrrum var iðulega talað um tukthús og tukthúslimi. Þau orð heyrast nú orðið afar sjaldan.

Svo sannarlega er það umhugsunarefni hvaða orð eru notuð yfir þá einstaklinga sem búa um lengri eða skemmri tíma á stofnunum á vegum opinberra aðila. Orðin mega ekki draga úr mennsku þeirra heldur ættu þau að vera fremur hlutlaus en þó uppörvandi – og jafnvel að endurspegla markmiðið með vistun þeirra.