Listaverk eru af ýmsum toga

Mörgum þykir ekki við hæfi að tala um menningu í sömu andrá og fangelsi. Telja slíka staði ekki tengjast menningu á neinn hátt heldur jafnvel þvert á móti ómenningu. Ómenning er ekki menning, og svo er hnussað. En auðvitað byggir allt á því hvernig hlutir og fyrirbæri tilverunnar eru skilgreindir. Þannig gæti „ómenning“ verið ein tegund menningar eftir því hver skilgreinir hvað telst vera menning og hvað ekki. Í þessu sem öðru sér hver maður hlutina út frá sínu sjónarhorni og skilgreinir eftir eigin höfði. Menning er nefnilega afstæð enda þótt hún kunni að fljóta í meginstraumum. Og straumkvíslarnar geta verið býsna margar.

Þess vegna er allt menning í víðtækum skilningi þó að hún sé iðulega flokkuð eftir ýmsum skilgreiningum.

Menning í hugum margra er einhvers konar æðri starfsemi á sviði lista og mennta sem er jafnvel kölluð hámenning ef hún þykir taka fram hversdagslegri menningu. Þá horfa menn svo dæmi sé tekið til sinfóníutónleika þar sem hljóðfæraleikar sitja eða standa prúðbúnir við hljóðfæri sín. Eða málverkasýninga í fallegum sölum þar sem allt ilmar kannski af þykkum olíulitum. Og ekki má gleyma ritlistinni sem kemur fram á bókum og í öðrum miðlum nútímans. Lestur er og menningarleg athöfn einstaklingsins hvort heldur hann er með í höndunum sígilt verk eða einnota reyfara enda þótt einhverjir kunni að meta hið fyrrnefnda mjög mikils en það síðarnefnda til fárra fiska.

Stundum er talað um fangelsismenningu. Hún er oft flokkuð sem afkimamenning. Fangelsið er þá afkimi í veröldinni og mjög sérstakur í augum margra þar sem margt er öðruvísi en annars staðar.

Sá menningarlegi jarðvegur sem margir fangar koma upp úr getur verið með öðrum hætti en hinna sem fyrir utan standa. Sameiginleg lífsreynsla þjappar í mörgum tilvikum mönnum saman eins og brokkgeng skólaganga og kynni af sérfræðingum kerfisins frá því þeir gengu inn í leikskólann og stungu kannski síðan af út úr grunnskólanum – og margir þeirra koma úr sama borgarhverfi. Þeir kannast hver við annan áður en þeir sjást! Fangarnir glíma oft við sameiginlega vanda sem er af margvíslegum toga. Það getur verið fíkn, ofvirkni og alls kyns raskanir. Slíkt setur auðvitað mark sinn á manninn. Nú húðflúrið, tatttúin, eru áberandi þáttur í þessum menningarafkima, og hér fyrrum voru þau í það minnsta tákn um að viðkomandi væri hluti af hópnum.

Sagan er stysta leið milli manna, svo er oft sagt. Hún er aðferð til að miðla menningu. Og fangar segja sögur sem ekki eru í augum allra uppbyggilegar. En frá þeim verður aldrei komist. Frásögn er með elstu menningarlegu fyrirbærum mannkynsins. Að segja frá því sem á daga þína hefur drifið – og það sem hæst hefur borið í lífi hvers og eins. Sögumaðurinn er eigandi frásagnarinnar og sumt í henni eru hreinar og beinar staðreyndir, annað staðreyndir í listrænum búningi, ofnar inn í skynjun og tilfinningu. Og sumt eru ýkjur eða ósannindi – og allt þar á milli. Allt fléttast saman í frásögn. Það eru sögur og sögusvið sem samfangarnir kannast við. Oft er hver saga annarri lík því vettvangurinn eru undirheimar, heimur afkimamenningarinnar, sem áheyrandinn er í flestum tilvikum kunnugur. Sagan er kannski hetjusaga í augum frásagnarmannsins, hvernig hann framdi glæp sem er ef til vill í augum hans þrekvirki. Hvernig leikið var á verði laganna og komið sér í skjól einhvers staðar. Sögur um afbrot og flótta. Um glæpi. Dóp og rugl. Og að lokum saga um ósigur. Meðferðarsögur og sögur af fólki sem hefur andúð á hinu hefðbundna samfélagi og finnst það vinna á móti sér; fórnarlambssögur. Svo má ekki gleyma draumasögunum. Sögum um drauminn um að losna úr viðjum lífsstíls sem engu skilar. Draumurinn um að verða venjuleg manneskja. Þá hversdagslegar sögur hjá mörgum og þær ásamt öðrum eru órjúfanlegur hluti af afkimamenningunni, eða menningunni á þessum tiltekna stað í tilverunni sem heitir fangelsi.

En menn segja ekki bara sögur heldur skrifa sumir fangar sögur og ljóð. Mála og leika á hljóðfæri. Og aðrir fást jafnvel við tónsmíðar. Enn aðrir smíða listagripi og allt leikur í höndum þeirra. Sumir lifa og hrærast í heimi kvikmynda. Allt er þetta sköpun menningar og fjölbreytileg menningarneysla.

Fangelsi eru því menningarstaðir fyrir sitt leyti eins og aðrir staðir. Hversdagslegur grámi fangelsanna getur hins vegar orðið nokkuð íþyngjandi. Þess vegna mætti styrkja menningu þeirra og kynna þar í ríkari mæli ýmsar tegundir menningar. Það er til dæmis undravert að málverk (og þó ekki væri nema þá eftirprentanir!) skuli ekki hanga uppi í öllum fangelsisdeildum. Í flestum stofnunum ríkisins eru málverk á veggjum sem ríkið á og lánar eða leigir stofnunum til að prýða þær og vekja upp menningarlegar tilfinningar. Og ríkið á urmul af listaverkum sem geymd eru hér og þar. Og þá má ekki gleyma því að sumir fangar hafa verið prýðilegir listmálarar og málað í fangelsunum og stundum lánað viðkomandi fangelsi verk sín til að prýða húsið.

En svo öllu sé til haga haldið þá má ekki gleyma þeim listamönnum og öðrum sem koma í fangelsin og deila list sinni með föngunum. Það er aldrei of oft þakkað. Margir þeirra hafa lagt fram krafta sína svo áratugum skiptir og sýnt mikla rausn og fórnfýsi.