Ráðuneytið hefur svarað

Orðin hér að ofan eru tekin úr fundargerðarbók stjórnar Litla-Hrauns frá 25. nóvember 1980. Beiðni fanganna er á vissan hátt hógvær þar sem óskað er eftir þessu tiltekna kjöti af og til. Hið háa ráðuneyti hefur svarað afdráttarlaust. Engar breytingar, engar steikur eða kjúklingur.

Nú er öldin önnur. Þó ekki svo að skilja að nautasteikur séu upp á hvern dag í fangelsum landsins. En kjúklingur er býsna algengur enda ekki dýr fæða.

Matur skiptir miklu máli í fangelsum. Nú er það svo að flestir fangar matreiða sjálfir mat sinn og oft í félagi við aðra fanga. Það er oftast venjulegur matur eins og sagt er. Sumt hollt og gott og annað miður eins og gengur.

Í mörgum fangelsum reynir á fanga þegar kemur að matartilbúningi. Ekki þarf að taka það fram að matur er lífsnauðsynlegur og skiptir jafnmiklu máli og andardrátturinn.

Á sama hátt og það er mikilvægt að draga að sér ferskt og gott loft – búa við loftgæði eins og það heitir í nútímanum – þá er alls ekki sama hvað menn setja ofan í sig.

Þar sem menn búa á fangelsisdeildum og þurfa að elda mat sjálfir þá verða þeir að skipuleggja bæði innkaup og matseldina. Koma sér upp matarklúbbum eins og margir gera – eða elda ofan í sig sjálfa eina og sér. Fangar fá greidda matarpeninga vikulega og með því að sameinast um matarfélag verður meira úr fénu en ella.

Matseld tekur tíma og þarf að undirbúa vel svo allt gangi örugglega og fumlaust fyrir sig. Sumir fangar eru afbragðskokkar – og aðrir síðri. Margur fanginn hefur lært að matbúa í fangelsinu. Lært af samföngum sínum sem eru áhugasamir um matargerð og komist að því að það er mjög svo áhugavert og skemmtilegt að gefa sig að eldamennsku. Það er þroskandi að sjá hvernig standa skal að verki til að matur verði góður. Þær eru óteljandi matreiðslubækurnar sem komið hafa út og sumir fangar eiga slíkar bækur og fara eftir uppskriftum. Þeir vita líka að matseldin getur brugðist eins og á öðrum heimilum. En oftast tekst hún með ágætum. Það vita þeir jafnvel og aðrir.

Hið háa ráðuneytið þarf sem betur fer ekki lengur að sinna kvörtunum fanga um mat sem að þeim er réttur og svara um hæl að engar breytingar verði gerðar. Breytingarnar eru nú sem betur fer í höndum fanganna sjálfra og eykur þar með sjálfstæði þeirra og jákvætt frumkvæði.

Ekki má gleymast að margt hefur breyst til hins betra í fangelsiskerfinu á umliðnum árum.