„Hótelið“ lækkar um eina stjörnu

Ofangreind orð eru úr fundargerð stjórnar Litla-Hrauns frá 1984 þegar vörukaup fanga voru takmörkuð. Innan sviga hefur verið fært af fundarritara: „Hótelið lækkað um heila stjörnu.“  Vitaskuld er hér um kímni að ræða en í henni er broddur. Ekki er getið um hve margar stjörnur „hótelið“ hafði fyrir lækkun.

Stundum hefur verið talað um Litla-Hraun sem hótel og er enn gert. Þarf ekki annað en að fara inn á bland.is og sjá þar ýmis ummæli í þá veru. Orð eins og hressingarhæli og lúxushótel hafa  líka verið notuð. Með notkun þessa orðs kemur fram ákveðið neikvætt viðhorf í ljós gagnvart fangelsi og föngum. Það viðhorf er úr sér gengið enda er allajafna sitthvað í boði fyrir fanga eins og nám og vinna þó hvorugt kunni í öllum tilvikum að hafa aðdráttarafl fyrir alla og geta ýmsar ástæður búið þar að baki. Þó má ekki leyna því að sumir fangar hafa komið í bágu ástandi til afplánunar eftir sukksamt líferni og farið býsna sprækir út í frelsið enda lifað heilsusamlegu lífi í fangelsinu. Það er fagnaðarefni.

Í nóvembertölublaði Vikunnar birtist árið 1978 ítarleg umfjöllun um Litla-Hraun og voru sumar myndir í lit sem þótti nýlunda. Forsíðu Vikunnar prýddi mynd af föngum og fyrirsögnin var: „Hótel Litla-Hraun.“ Þarflaust er að taka fram að fangelsi verður aldrei hótel enda þótt eitthvað í starfsemi þess kunni að minna á hótelrekstur. Í fangelsi eru menn sviptir frelsinu sem er eitt það nauðsynlegasta að eiga þegar dvalist er á hóteli.

 

Vikan fjallaði ítarlega um Litla-Hraun í máli og myndum í nóvermber 1978. Sjá: http://timarit.is/files/27372240.pdf#navpanes=1&view=FitH

Verslun í fangelsinu

Verslun á Litla-Hrauni hefur verið starfrækt lengi. Ýmis konar form hefur verið á rekstri hennar. Á einu tímabili var hún rekin af yfirfangaverðinum í frítíma hans.

Á níunda áratug síðustu aldar var ákveðið að vörukaup fanga yrðu takmörkuð við fáar vörutegundir. Á sama tíma var tekin sú ákvörðun af öryggisástæðum að selja föngum ekki öl og gosdrykki í glerflöskum heldur yrði athugað með sölu á svaladrykkjum í pappaumbúðum. Í fyrstu var verslunin aðallega  með sælgæti og tóbak.

Síðar var verslunin rekin af matráði staðarins og var komið fyrir í rými þar sem hann hafði áður haft kjötvinnslu. Fangelsið hefur sjálft séð um rekstur hennar í tæpa tvo áratugi. Umfang hennar breyttist mikið þegar fangar fóru flestir að elda sjálfir. Hún verður að hafa á boðstólum allan venjulegan mat auk margs annars. Reynt er að stilla álagningu í hóf.

Nú er rekin á Litla-Hrauni verslunin Rimlakjör og er vöruúrval allmikið. Fangar starfa í versluninni undir stjórn verslunarstjóra.

 

Rimlakjör er nafn verslunarinnar á Litla-Hrauni. Vöruúrval er gott.