Margur kemur inn til afplánunar í ójafnvægi og það tekur tíma að ná áttum í þessum lokaða heimi sem heitir fangelsi. Sporin inn voru þung og sá tími sem í vændum var virtist óendanlegur.Tilfinningar geta verið blendnar. Einmanaleiki getur hellst yfir og ótti við sjálfan sig og hið ókomna bankar upp á. Sjálfsásökun og ásakanir í garð annarra togast kannski á og sjálfsvorkunn bærir á sér. Kannski rumskar hefndarhugur í dýpstu hugarfylgsnum eða eftirsjá kraumar undir niðri og vill leita út. Þolinmæðisþröskuldur er lágur og það þarf andlegan styrk til að horfast í augu við þrenginguna sem fangelsisvistin hefur í för með sér.

Allt eru þetta eðlilegar tilfinningar þeirra sem glíma við líf sitt í þessum aðstæðum.

Það má ekki gleymast að fangelsi er skipulögð þrenging á lífi fólks og aðstæðum. Ramminn utan um lífið inni í fangelsi er þrengri en sá sem búið er við fyrir utan það. Mikilvægt er fyrir fangann að nýta sér þá möguleika sem það gefur þó svo þeir séu ekki miklir. Ekki síður er það mikilvægt að átta sig á þeim áhrifum sem vistin hefur á líkama og sál. Auðvelt er í fangelsi að hafa allt á hornum sér – vistin er nú einu sinni þannig að dregið hefur úr möguleikum fangans til samskipta og eðlilegs lífs. Hversdagsleikinn getur verið þungbær og fangelsisþreytan yfirþyrmandi. Það getur líka verið erfitt á köflum að bera sig vel og halda uppi jákvæðum dampi. En það er hægt – margur fanginn hefur sýnt það og sannað.

Innan fangelsis hríslast margir neikvæðir straumar. Það er lífsnauðsynlegt fyrir fangann til þess að afplánun hans verði bærilegri að láta ekki berast með þessum þungu straumum. Sjálf fangavistin elur af sér neikvæðni vegna þess einfaldlega að enginn vill vera í fangelsi. Í eðli sínu er það dapurlegur staður og minnir sífellt á að eitthvað fór úrskeiðis. Sú hætta er líka fyrir hendi að fanginn missi  tök á sjálfum sér í vistinni og gefi sig á vald herskárri hugsun. Hugsun þar sem hann telur sig hafa rétt til að beita samfanga sína valdi og auka á vanlíðan þeirra annað hvort í hefndarskyni eða með því setja sig í dómarasæti. Hann hefur þá gleymt því að í fangelsi sitja allir fangar við sama borð.

Ein leið til að gera vistina bærilegri fyrir sjálfan sig og aðra er að horfast í augu við sjálfan sig og styrkja samstöðu fanga til góðra verka innan járnrammans sem heitir fangelsi.

Margir fangar átta sig vel á eðli þessarar vistar og hafa einsett sér að gera eins gott úr henni og hægt er. Forðast að horfa á hina neikvæðu hliðar og þess í stað lagt sig fram um að byggja sjálfa sig upp með ýmsu móti. Það er nefnilega mikilvægur þáttur í því að horfast í augu við sjálfan sig. Kannast við sjálfan sig og horfa á eigin gjörðir, skoða líf sitt með opnum augum og spyrja: Hvers konar lífi vil ég lifa? Eða: Ræð ég við líf mitt? Og ef ég ræð ekki við það: Hvað á ég að gera? 

Fangar komast fljótt að raun um að þeir geta leitað til fangavarða með ýmis mál og þegið góð ráð um eitt og annað. Enda þótt fangavörðurinn sinni eftirlitsstörfum þá verður aldrei komist fram hjá hinum mannlega þætti sem blasir við á vettvangi dagsins: Fangi og fangavörður. Þar á milli verða langoftast góð samskipti til og gefandi – sérstaklega fyrir fangann.

Fangar geta líka sýnt samstöðu – þeir hafa sannað það iðulega. Samstöðu til góðra verka. Engir upplifa fangavist nema þeir sjálfir. Aðrir horfa á fangavistina utan frá. Enginn veit hvað er að hafa glatað frelsi sínu nema hinn frelsissvipti.

Samfélag fanga er eins og hvert annað lokað samfélag. Öll samskipti manna eru eins og vefur. Ólíkir þræðir vefjast saman, sumir mynda fallega mynd, aðrir eru ruglingslegir og enn aðrir eru sem hver annar andlegur gaddavír. Innan fangelsis getur samskiptavefur fanga verið flókinn og stundum mjúkur og stundum harður. Sjálfir geta fangar mýkt hann og þar með haft áhrif til góðs fyrir alla sem bíða þess tíma með óþreyju að komast út vegna þess að fangelsi er ekki endastöð. Það má aldrei gleymast.

 

Fangelsi er ekki endastöð