Auglýsing frá Litla-Hrauni í Morgunblaðinu 30. júlí 1939

 

Í þessari auglýsingu kemur fram ákveðin festa og allar línur hreinar. Sá sem undirritar þessa afdráttarlausu auglýsingu er eins og fram kemur Teitur Eyjólfsson (1900-1966). Hann tók við starfi forstjóra Litla-Hrauns 1. júlí 1939[1] og gegndi því til 1946. Teitur var bóndi í Eyvindartungu og hafði margt fjár. Þegar mæðiveikin stakk sér niður á bú hans vildi svo til að starf forstöðumanns á Litla-Hrauni var laust. Hermann Jónasson, dómsmálaráðherra, réð hann í starfið. Guðmundur Daníelsson tók viðtal við hann í júní 1960 og spurði hann m.a. um forstöðumannsár hans á Litla-Hrauni. Teitur var spurður hvers konar heimilisháttum hann hafi fylgt á Litla-Hrauni og svaraði því til hann hafi leitast við að hafa þá eins og hann þekkti besta í sveit. Búrekstur var mikill á Litla-Hrauni, kartöflurækt og 100 stórgripir. Munurinn á Litla-Hrauni og öðrum sveitaheimilum var sá að enginn fékk að fara af hælinu og voru menn lokaðir inni milli kl. 21.00 á kvöldin og til kl. 7.30 að morgnana. Dagleg störf veittu föngunum hins vegar nægilegt frelsi og áttu sumir fanganna sína bestu daga á hælinu. Taldi hann að vinna frá morgni til kvölds gerði menn umgengnishæfa. Fangafjöldinn hafi verið allt að fjörutíu menn – samkvæmt dagbók Litla-Hrauns 1. maí 1940 voru þeir t.d. 36. Starfsmenn í tíð Teits voru tveir fangaverðir, tveir verkstjórar, einn bryti og einn bílstjóri.

Teitur segir að sér hafi gengið vel að stjórna heimilinu þessi sjö ár sem hann veitti því forstöðu. Betur gekk þó að eiga við útlenda fanga en íslenska – þetta var á hernámsárunum – og taldi Teitur heragann vera skýringu á því.  Þó var einn útlendingur sem reyndist afar erfiður og sá var danskur maður haldinn íkveikjusýki. Kveikti hann í Litla-Hrauni.

Nokkrir íslenskir fanga ætluðu eitt sinn að efna til uppreisnar meðal fanganna vegna lágra launa. Sagðist Teitur hafa séð við því og ekki opnað klefa uppreisnarforingjanna þriggja daginn sem þeir ætluðu að láta til skarar skríða og því ekkert orðið úr uppreisn. Teitur kvað þessa menn hafa haft mikla æfingu í „félagsmálaforystu úr höfuðstaðnum“[2] og á hann líklega við fangana úr dreifibréfsmálinu svokallaða.[3]

En hernámsárin höfðu sín áhrif á Litla-Hrauni eins og þessi færsla úr dagbók Litla-Hrauns sýnir:

„Ár 1940 hinn 12. maí að kvöldi kl. 9 neituðu allmargir fangar að fara í klefa sína og báru því við að þeir vildu ekki vera innilokaðir undir þeirri loftárásarhættu sem nú væri orðin. Þar sem þetta er fullkomið brot á reglum þeim sem föngunum eru settar og þar með vítavert athæfi, verður mál þeirra tekið fyrir. Þessir menn eru sekir um ofangreint: (Nöfn fanga talin upp.)

Allir fangarnir viðurkenndu brot sitt og lofuðu því að slíkt skyldi ekki koma fyrir aftur.

Sakir voru látnar falla niður.“

Undir þetta ritaði forstöðumaðurinn  Teitur Eyjólfsson.“[4]

Teitur Eyjólfsson ritaði grein um fangelsismál í Tímann 1956 og þar kom fram að hann teldi mikilvægt að grípa sem fyrst inn í óheillaþróun hjá ungum drengjum sem komast á unglingsaldri undir mannahendur. Fá þeim holl og gefandi verkefni t.d. skógrækt og koma þeim á góð heimili ef þörf er á. Slíkt gæti komið í veg fyrir að þeir færu í fangelsi.

Jafnframt sagði hann að margir þeirra manna sem væru á vinnuhælinu ættu ekkert erindi þangað nema ef Litla-Hraun væri jafnframt traust fangelsi undir styrkri stjórn. Erfitt væri að deildaskipta vinnuhælinu vegna þess hversu fangar væru fáir:

„Þess vegna hefir Litla-Hraun verið alla tíð nokkurs konar allsherjar ruslakista þjóðfélagsins. Og frá stofnun þess hafa dvalið þar dómfelldir menn fyrir allar tegundir afbrota. Bæði „harðnaðir afbrotamenn“ með góðar skipulagsgáfur, og sauðmeinlausir auðnuleysingjar, sem lifðu á þeim hrakhólum í hinu frjálsa lífi, að vistartími þeirra á Litla-Hrauni var bezti kaflinn í lífi þeirra.“[5]  

 

Forsíða Morgunblaðsins 30. júlí 1939

 

[1] Gjörðabók fyrir yfirstjórn vinnuhælisins á Litla-Hrauni, 1929-1970. Löggilt af Magnúsi Torfasyni, sýslumanni, 1. ágúst 1929, bls. 27

[2] Guðmundur Daníelsson: Þjóð í önn – viðtöl og þættir, Þá opnaðist mér nýr heimur. Viðtal við Teit Eyjólfsson frá Eyvindatungu. Reykjavík, 1965, bls. 71-73

[3] Hæstaréttardómar, XII. bindi 1941, Reykjavík 1942, bls. 60-61: (Dreifibréfsmálið: Íslenskir verkamenn sem unnu við gerð flugvallarins í Vatnsmýri lögðu niður vinnu 1941. Dreifibréfsmálið snerist um bréf sem nokkrir þeirra dreifðu meðal breskra hermanna og hvöttu þá til að ganga ekki í störf sem íslenskir verkamenn höfðu unnið fyrir bresku herstjórnina. Mál var höfðað gegn átta verkamönnum, og tveimur öðrum sem voru ritstjórar Þjóðviljans. Fjórir verkamannanna voru dæmdir í Hæstarétti, tveir í fimmtán mánaða fangelsi og tveir í fjögurra mánaða fangelsi.)

[4] Dagbók Litla-Hrauns 12. maí 1940, bls. 74

[5] Tíminn 28. september 1956: Teitur Eyjólfsson: Fáein orð um stórt mál