Litla-Hraun 1957

Þessi mynd birtist í Morgunblaðinu 7. nóvember 1957. Fáar slíkar myndir eru til af Litla-Hrauni frá þessum tíma. Hún sýnir hve reisulegt húsið hefur verið en það var teiknað sem sjúkrahús af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins. Hinar frægu burstir húsameistarans njóta sín vel.

En hví er fáni dreginn í hálfa stöng? Og hvaða svarti bíll er fyrir utan vinnuhælið?

Aðfararnótt 6. nóvember varð uppþot meðal fanganna. Ástæða þess var hugsanlega sú að þeir vildu að sýna samstöðu með þremur samföngum sínum sem strokið höfðu úr prísundinni en verið handteknir og færðir í einangrunarklefa á Litla-Hrauni. Önnur ástæða kann að vera sú að þeir hafi viljað mótmæla almennt aðstæðum á vinnuhælinu.

Morgunblaðið sagði svo frá þessum atburði hinn 7. nóvember að fangar hefðu farið að kalla á fangaverðina um

„að hleypa sér fram á náðhús. Það gekk eitthvað seint, að því er föngunum fannst, að hleypa mönnum fram. Stöðugt bættust fleiri og fleiri fangar á báðum hæðum hússins í tölu hinna kallandi fanga. Áður en langt um leið var allt orðið snarvitlaust, sagði einn fanganna. Fangar sem leitt höfðu ólætin hjá sér, gerðust nú svo þreyttir, að fyrr en varði voru þeir líka farnir að öskra og hrópa. Þannig espaði einn annan. Á þessu mun hafa gengið nær alla nóttina. Það fékk enginn hvíld. Í sumum klefunum tóku fangar til að brjóta og skemma. Einn sleppti sér alveg og skar sig með rakvélablaði í handlegg, og varð af svöðusár.“

Fangaverðir kölluðu til lögreglu úr Reykjavík sér til aðstoðar.

Í öllum látunum varð einn fanganna bráðkvaddur í klefa sínum. Það var maður um fimmtugt.

„Var þá fáni dreginn í hálfa stöng á Litla-Hrauni,“

sagði Morgunblaðið.

Vísir hafði það eftir sýslumanninum í Árnessýslu 6. nóvember að lát fangans hafi borið að höndum ef til vill:

„óbeint vegna hávaða, og að hann hafi ekki þolað taugaæsinguna, sem myndaðist við ólæti og hótanir fanganna.“

Svarti bíllinn fyrir framan vinnuhælið er Chevrolet árgerð 1955 eða 1956. Hann var í eigu lögreglunnar og notaður til fangaflutninga. Jón Halldórsson, lögreglumaður, sá mikið um fangaflutninga á þessum tíma ásamt fleirum, og var hann kallaður Jón smali.

Fjær sér í fjós sem tók fjörutíu kýr og var byggt 1955-1956 ásamt hlöðu og sömuleiðis tveimur súrheysturnum. Um tíma var eitt mesta kúabú landsins á Litla-Hrauni með 55 kýr í fjósi. Hlaða og fjárhús voru reist 1955.

Þess skal getið að þegar þetta uppþot varð þá var svo að segja nýbúið að „opna“ Litla-Hraun aftur en það hafði verið lokað frá 8. nóvember 1956 og til 12. september 1957 vegna töluverðra endurbóta. Sextán fangar voru fluttir úr Hegningarhúsinu og austur á Litla-Hraun eftir þessar endurbætur.

Fyrirsagnir tveggja blaða voru á svipuðum nótum en Morgunblaðið skar sig úr:

Fyrirsögn Vísis 6. nóvember 1957 um uppþotið

Morgunblaðið birti með frétt sinni þessa einstöku mynd af Litla-Hrauni 7. nóvember 1957

Alþýðublaðið 7. nóvember 1957