Úr skýrslu forstjóra Litla-Hrauns árið 1929

Forstjóri Litla-Hraun, Sigurður Heiðdal, skilaði inn skýrslum til  dómsmálaráðuneytisins ársfjórðungslega fyrstu árin. Meðfylgjandi brot úr skýrslu hans er frá júlí til september 1929 en vinnuhælið tók til starfa 8. mars sama ár.

Eins og sjá má er forstjórinn nokkuð ánægður með fangana. Hér greinir hann meðal annars frá stroki af hælinu en einn fanganna „skaust frá vinnu heim að koti í nágrenninu“. Forstjórinn greinir hins vegar ekki frá stroki tveggja manna hinn 6. apríl sem fært var í dagbók hælisins en þeir fóru í „óleyfi til Eyrarbakka“.

Svo er það þessi blessaði Eyrbekkingur sem fór um veginn við hælið og virðist hafa boðið einum fanganna „suðuspiritus“  sem var þeginn og kannski með fögnuði. Um kvöldið urðu menn varir við að fanginn væri ölvaður og var á því tekið.

Nú svo er gaman að sjá að menn hafa tekið sér ýmislegt fyrir hendur að lokinni afplánun. Einn var áfram á hælinu við smíðar og svo fór annar á sjóinn og enn annar að læra skraddaraiðn.