Athyglisverð samantekt hjá forstjóra vinnuhælisins á Litla-Hrauni um fangana sem voru þar árið 1929

Forstjóri Litla-Hrauns skilaði inn skýrslu til dómsmálaráðuneytisins um fangana sem voru á vinnuhælinu árið 1929. Þeir voru alls tuttugu sem stigu fæti sínum inn fyrir dyr vinnuhælisins á fyrsta starfsári þess og stöldruðu mislengi við.

Sigurður Heiðdal, forstjóri Litla-Hrauns, hafði verið kennari og skólastjóri. Skýrsla hans er um margt  athyglisverð og minnir að sumu leyti á skólakladda. Hún veitir ýmsar upplýsingar um fangana eins og meðfylgjandi myndir sýna. Yngsti fanginn er nítján ára og sá elsti 53 ára. Meðalaldur er 30 ár. Tólf þeirra eru aldir upp hjá foreldrum sínum, aðrir hjá fósturforeldrum, föðurforeldrum og einn hjá föður sínum. Flestir eru utan af landi, nokkrir eru úr Reykjavík og Hafnarfirði. Tveir voru danskir og einn var sænskur.

Forstjórinn skráir líka menntun fanganna og flestir þeirra eru aðeins með barnaskólapróf, tveir menn eru með verslunarskólamenntun og einn með menntun frá Samvinnuskólanum. Við einn þeirra er skráð: „Enginn skóli.“ Hann skráir líka „stöðu“ þeirra eða starf. Langflestir eru verkamenn eða sjómenn. Tveir eru trésmiðir, einn er rakari og einn prentari, tveir vinna við verslun. Forstjórinn skráir líka hjúskaparstöðu þeirra. Þrettán eru ókvæntir, þrír eru kvæntir og þrír hafa skilið. Barnafjöldi er líka skráður. Ellefu eiga ekki börn, hinir eiga börn, og einn á tólf börn, annar ellefu börn og enn annar tíu.

Þá skráði hann hvort þeir væru bindindismenn eða ekki. Enginn þeirra fyllti þann flokk manna og þarf kannski ekki að koma á óvart. Hann gaf þeim líka einkunn fyrir það sem hann kallaði „iðni.“ Hæsta einkunnin þetta fyrsta starfsár var átta en sú lægsta var tveir.

Þessi mynd sem skýrslan gefur af fyrsta fangahópnum á Litla-Hrauni er kannski ekki svo ólík þeirri mynd sem blasir við þegar litið er yfir hópinn í dag. Flestir fanganna eru með litla menntun, tilheyra láglaunastétt. Fæstir eru kvæntir en eru þó í einhvers konar samböndum. Margir eiga börn en enginn á heilan tug eða tylft! Og eflaust eru bindindismenn ekki stór hluti af hópnum. Svo eru margir útlendingar í fangelsinu á Litla-Hrauni. Brotin sem skýrslan nefnir eru margvísleg: áfengissektir, innbrot, íkveikjur o.fl.  Eitt þeirra er leti. Sennilega enginn bak við lás og slá fyrir það í dag – að minnsta kosti ekki með beinum hætti.

Kannski má segja að þessi hópur sem dvaldist á Litla-Hrauni fyrsta starfsár vinnuhælisins sé á vissan hátt hinn dæmigerði fangahópur aldanna.

(Heimild: Þjóðskjalasafn Íslands: I. Db 9, nr. 441-453   92. Stjórnarráð Íslands, 1. Skrifstofa, B/379 1 1931-1931)

Um fanga á vinnuhælinu Litla-Hrauni árið 1929

 

Þeir voru ekki margir bindindismennirnir þetta árið – og iðnin var frá 2 og upp í 8