Vinnan herðir menn að mati forstjórans

Það var margt sem fyrstu fangarnir á vinnuhælinu Litla-Hrauni þurftu að fást við bæði utan húss sem og innan. Forstjórinn greinir í skýrslum sínum til dómsmálaráðuneytisins nokkuð nákvæmlega frá því sem fangar störfuðu að. Nokkur dæmi úr skýrslu frá 1. október til 31. deember 1930: smíði á kolaskúr, frágangur á leiðslum við aðalhúsið, kartöflugarðsvinna, þaraflutningur, viðgerð á flóðgörðum við hælið, gegningar  og viðgerð á skepnuhúsum, unnið við safnþró og vegagerð o.fl.

Í orðum hans í skýrslunni hér að ofan kemur fram sú skoðun hans að útivinna sé augljóslega allra meina bót. Hún læknar að minnsta kosti „andlega og líkamlega volaða menn“. En stutt vist á hælinu skilar ekki eins miklum árangri eins og löng að mati hans.

Á hælinu voru níu fangar á ofangreindum ársfjórðungi og heilsufar þeirra hafði verið „laklegt“, hegðun var „allgóð“ en „vinnukvíði“ þjáði suma þeirra „enda verið haldið til útivinnu þótt veður hafi verið misjafnt.“

(Heimild: Þjóðskjalasafn Íslands: I. Db 9, nr. 441-453   92. Stjórnarráð Íslands, 1. Skrifstofa, B/379 1 1931-1931)