Fagurt að líta til Litla-Hrauns. Þessa mynd gerði Höskuldur Björnsson, listmálari (1907-1963).

Elsta starfandi fangelsi landsins hefur nú um þessar mundir starfað í níutíu ár.

Hinn 8. mars 1929 komu fyrstu fangarnir til afplánunar á vinnuhælinu á Litla-Hrauni. Það voru tveir Danir og einn Íslendingur. Þetta fyrsta ár komu tuttugu fangar á vinnuhælið og dvöldust mislengi. Flestir voru ungir að árum og meðalaldurinn var um þrjátíu ár. Þeir voru sjómenn og verkamenn, fæstir kvæntir, nokkrir áttu börn og sumir mörg, allt að tólf. Menntun þeirra flestra var ekki mikil en nánast allir höfðu aðeins lokið barnaskólaprófi. Og enginn þeirra var bindindismaður. Afbrot þeirra voru af ýmsum toga og meðal annars hafði einn verið dæmdur fyrir leti.

Þessi fyrsti hópur sem dvaldist á vinnuhælinu var þegar öllu er á botninn hvolft ekki svo ýkja ólíkur þeim sem síðar áttu eftir að ganga þar um garða. Meginvandi þeirra langflestra var og er einhvers konar óregla í lífinu sem leiðir til afbrota og fangavistar.

Menn voru ýmist keyrðir austur á Litla-Hraun á sínum tíma eða komu sér sjálfir yfir heiðina. Í dagbók Litla-Hrauns var svo dæmi sé tekið skráð 11. janúar 1939:

„Þess skal getið að sumir af þessum mönnum komu mjög ölvaðir, sérstaklega X. Hann kom í privat bifreið með dömu með sér og hafði með vín.“

Nú sér um fangaflutninga sérstakt flutningsteymi – og í farteski þess er hvorki vín né dömur.

Í nokkur ár hafði staðið auð bygging á Eyrarbakka sem átti að verða sjúkrahús en það gekk ekki eftir. Stjórnvöld ákváðu að nýta sjúkrahúsbygginguna sem vinnuhæli fyrir brotamenn en fangarými skorti í landinu. Það var óbein hugsjón margra að vinnuhæli í fallegu umhverfi gæti hugsanlega snúið mönnum af ógæfubraut. Búskapur var stundaður á hælinu um áratugaskeið og áttu fangar að sjá um hann undir stjórn gæslumanna. Umhirða með búpeningi átti að hafa mannbætandi áhrif á menn – hið heilbrigða sveitalíf var keppikeflið. Þessi hugmynd um mannbætandi sveitastörf var lengi við lýði og svo skrifaði til að mynda einn forstöðumanna Litla-Hrauns í Morgunblaðið 14. september 1956:

„Uppskeruvinna, umgengni við dýrin og moldina er öllum holl og góð og engum frekar en þeim mönnum er gista betrunarhúsin.“

Margvísleg önnur vinna var um hönd höfð á vinnuhælinu og oft býsna fjölbreytt en búskapur er nú aflagður fyrir löngu.

Margt hefur gerst í níutíu ára sögu Litla-Hrauns. Þjóðfélagið hefur tekið stakkaskiptum og vinnuhæli og fangelsi breytast í samræmi við það.

Mikil umskipti hafa orðið á Litla-Hrauni hin síðari ár. Nýtt fangahús sem reist var 1995 bætti hag fanga svo um munaði. Klefar eru stærri en tíðkaðist áður og í hverjum þeirra er salerni og steypibað – segja má að það eitt og sér hafi verið bylting. Síðan hefur innra starf fangelsisins verið þróað eftir því sem tækifæri hafa gefist. Allt byggir á því að þau sem stjórna samfélaginu hverju sinni hafi augun opin fyrir því sem er uppbyggilegt í fangelsismálum.

Á Litla-Hrauni hefur föngum alltaf staðið til boða vinna af ýmsu tagi. Samhliða vinnu hin síðari ár hefur föngum gefist kostur á námi en kennsla hófst á Litla-Hrauni árið 1974. Nú er þar rekið útibú frá Fjölbrautaskóla Suðurlands sem býður upp á sömu námsleiðir og aðrir fjölbrautaskólar. Margir fangar hafa stundað þar nám og nokkrir lokið þar ýmsum áföngum og þar á meðal stúdentsprófi. Segja má að einstaklingsmiðað námsframboð til handa föngum sé eitt það mikilvægasta í samfélagsþjálfun þeirra um þessar mundir. Hvatning til náms og vinnu er lykilatriði til þess að koma föngum á rétt spor. Allir þeir sem ganga inn um dyr á Litla-Hrauni munu fyrr eða síðar ganga þar út og taka með einum eða öðrum hætti þátt í samfélaginu. Það er allra hagur að sú útganga sé sem farsælust. Stundum fer hún vel og stundum ekki. Þess vegna er meðal annars rekstur meðferðardeildar Litla-Hrauns mjög mikilvægur því fíkniefni eru alvarlegur vandi sem margir fangar glíma við.

En það eru ekki bara fangar sem eru í fangelsum. Fangaverðir og annað starfsfólk Fangelsismálastofnunar ríkisins starfar á þessum vettvangi og sinnir mikilvægum störfum sem eru oft vandasöm. Þar fer vaskur hópur sem eðli máls kynnist föngum í margvíslegum aðstæðum og reynist þeim vel meðan á afplánun stendur. Það er hinn hljóðláti hópur starfsmanna sem sér til þess að starfið innan fangelsa gangi sem best fyrir sig og ber ábyrgð á því. Þessu má ekki gleyma.

Allir vita að fangelsi eru viðkvæmir staðir þar sem margt getur gerst. Saga Litla-Hrauns geymir mörg hörmuleg atvik í lífi manna. Ósigra sem tekið hafa á fanga og fjölskyldur þeirra sem og alla starfsmenn Fangelsismálastofnunar. En hún geymir líka marga sigra. Þegar menn ákveða að snúa blaðinu við annað hvort með hjálp góðra manna eða vegna einhverra sérstakra atvika í einkalífi þeirra. Því verður að halda til haga.

Á meðan fangelsi eru rekin verður að sjá til þess að þau séu ætíð sem best búin. Það er samfélagsleg skylda sem stjórnvöld hverju sinni verða að gæta að í smáu sem stóru. Hvert fangelsi er nokkurs konar spegill sem sýnir mannúðarviðhorf velferðarsamfélagsins gagnvart dæmdu fólki. Spegillinn á að vera skýr, óbrotinn og laus við móðu.

Litla-Hraun árið 2019