Biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir, flutti hugleiðingu við helgistund í Hólmsheiðarfangelsinu

Biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir, vísiteraði Hólmsheiðarfangelsið 20. mars s.l. Með í hennar för var prófastur Reykjavíkurprófastsdæmis vestra, sr. Helga Soffía Konráðsdóttir, sr. Þorvaldur Víðisson, biskupsritari og Elías Þórsson, starfsmaður Biskupsstofu. Fangaprestur var og með í för.

Fangelsismálastjóri, Páll E. Winkel, og Halldór Valur Pálsson, forstöðumaður fangelsisins, tóku á móti biskupi og fylgdarliði hennar. Þeir kynntu fangelsið fyrir gestunum og fóru yfir helstu þætti í fangelsiskerfinu. Var það skýr og yfirlitsgóð kynning og mjög svo áhugaverð.

Biskup ræddi og við fangaverði og skoðaði stjórnstöð fangelsisins í Hólmsheiði.

Helgistund var í umsjón fangaprests. Biskup flutti hugleiðingu og prófastur lék á gítar og leiddi sönginn. Stundin var vel sótt af föngum og var hressing  veitt í lokin. Fangar ræddu við biskupinn og voru ánægðir með hana og hugleiðingu hennar.

Móttökur fangelsismálastjóra og forstöðumannsins voru einstaklega góðar og ljúfmannlegar.

Biskupar hafa áður heimsótt fangelsin í tengslum við vísitasíur. Sr. Sigurbjörn Einarsson, biskup, kom á Litla-Hraun í október 1961, ræddi  við fanga og hafði um hönd helgistund. Þá kom sr. Karl Sigurbjörnsson, biskup, fjörutíu árum síðar, eða 2001 í  marsmánuði á Litla-Hraun. Flutti og hugleiðingu í helgistund og ræddi við fanga. Sr. Ólafur Skúlason, biskup, heimsótti Hegningarhúsið við Skólavörðustíg í lok níunda áratugar síðustu aldar og flutti hugleiðingu við helgistund.

Biskupar hafa gert sér far um að heimsækja sem flestar stofnanir í vísitasíum sínum og er það vel. Þær heimsóknir eru vel þegnar og sér í lagi af þeim sem búa við aðstæður sem skerða lífsgæði þeirra um lengri eða skemmri tíma.

Starfsemi Hómsheiðarfangelsisins var kynnt fyrir biskupi og föruneyti hennar

 

Biskup kvaddi gestgjafa sína. Frá vinstri: Halldór Valur Pálsson, forstöðumaður Hólmsheiðarfangelsisins og í miðið Páll E. Winkel, fangelsismálastjóri