Fangar og aðstandendur

/Fangar og aðstandendur
Fangar og aðstandendur2018-03-06T23:17:02+00:00

Heimsóknir til fanga

Fangar geta sótt um að fá heimsóknir barna sinna í Barnakot sem er skammt fyrir utan bílastæði Litla-Hrauns. Innandyra er allt snyrtilegt og fyrir utan eru leiktæki

Heimsóknir til fanga eru mikilvægar. Sumir fangar fá þéttar heimsóknir frá fjölskyldum, mökum og vinum. Aðrir fá sjaldan heimsóknir og enn aðrir aldrei. Margt getur valdið því. Flest þau sem eru í fangelsi eru af höfuðborgarsvæðinu, Stór-Reykjavíkursvæðinu, og séu þau send á Kvíabryggju eða til Akureyrar getur augljóslega verið erfiðara um vik að heimsækja þau – það er minna mál að skjótast í Hólmsheiðarfangelsið eða austur á Sogn í Ölfusi og Litla-Hraun á Eyrarbakka.  Og vetrarfærðin er misjöfn eins og allir vita.

Tengsl fanga við fjölskyldur eru vissulega breytileg og tíðni heimsókna til þeirra getur farið eftir því hversu gott sambandið er. Í sumum tilvikum er látið nægja að hafa símasamband. Í opnum fangelsum, Sogni og Kvíabryggja, er þetta þægilegra enda hafa  fangar farsíma sem og aðgang að tölvum og neti.

Það reynir vissulega á aðstandendur að heimsækja sína nánustu í fangelsi. Fyrstu skrefin eru þung og kvíðvænleg. Smám saman tekur vaninn yfirhöndina en þrátt fyrir það verður aldrei venjulegt að heimsækja nákominn í fangelsi. Sumir fangar vilja sem flestar heimsóknir meðan aðrir vilja færri  og taka sér hvíld á þeim. Samtölin í fjölskyldunum vilja stundum falla í sama farveg og endurtekningin verður hversdagsleg. Fanginn sjálfur hefur oft ekki frá miklu að segja, hver dagur er öðrum líkur.

Fjölskyldur finna sér allajafna farsæla leið í þessum efnum.

Oft er spurt hvort börn eigi að heimsækja feður sína og mæður í fangelsi. Það fer auðvitað eftir aldri þeirra og þroska hvernig samband þeirra hefur verið. Sumir fangar vilja ekki láta börn sín sig sjá í þeim aðstæðum sem fangelsi heita – gildir þetta fremur um skammtímaafplánunarmenn en þau sem horfa fram til langrar fangavistar.

Þegar barn hefur aldur og þroska til er nauðsynlegt að ræða við það um fangelsisvist foreldra, föður eða móður. Einfaldasta leiðin er að tala um það sem vanda sem hinn fullorðni glímir við og sá vandi getur verið margþættur. Til dæmis fíkn, sem er algengasti vandinn og oft erfiður viðueignar. Hinn fullorðni hafi brotið reglur  og lög og samfélagið taki til dæmis á þeirri hegðun með fangelsun. Fangelsi sé skammakrókur samfélagsins. Einlægni, ástúð og heiðarleiki eru hér lykilorð.

Mikilvægt er að ræða við börnin um að fangelsi á Íslandi séu ekki hryllingsstaðir eins og margar erlendar teiknimyndir og kvikmyndir sýna. Draga fram það jákvæða, skóla, vinnu, góða fanga og hjálpfúsa fangaverði, allir fá að borða o.s.frv. Hver maður hefur sitt einkarými og aðstæður séu ágætar. Þá sé reynt að hjálpa mönnum eftir því sem kostur er. Og allir koma að lokum heim – út í frelsið.

Einkamál

Fangar hafa auglýst í einkamáladálkum dagblaðanna

Í leit að sambandi – með vinskap í huga – einkamál

Það kemur fyrir að fangar auglýsa í einkamáladálkum dagblaðanna og vilja kynnast stúlkum – og oft með vinskap í huga. Ekki er vitað hver árangurinn hefur verið af slíkum auglýsingum. Hér gildir náttúrlega frelsi einstaklingsins og ábyrgð hans. Sá eða sú sem svarar slíkum auglýsingum verður að gera sér grein fyrir aðstæðum og hafa skýra mynd af því hvað sambandið kann að fela í sér. Slík sambönd geta heppnast og orðið farsæl meðan önnur mistakast – eins og gengur.

Danskur útúrdúr en þessu þó tengdur

Á Íslandi situr enginn sem betur fer til lífstíðar í fangelsi. En svo er reyndar víða og þarf ekki langt að fara. Fyrir skömmu spratt upp umræða í Danmörku um heimsóknir til fanga með lífstíðardóma. Ekki voru athugasemdir gerðar við hefðbundnar heimsóknir skyldmenna og gamalla vina. Umræðan snerist um nýja heimsóknargesti, fólk sem vill komast í samband við lífstíðarfangana af ýmsum hvötum. Í sumum tilvikum er það fólk sem einhverra hluta vegna vill kynnast mönnum sem framið hafa skelfilega glæpi. Aðrir vilja kannski endurnýja kynnin af eðlilegum ástæðum, til dæmis hafi viðkomandi spilað blak fyrir fjórum árum við mann sem hlýtur lífstíðardóm og finnur hjá sér þörf til að líta til hans, hví ekki?

Dansk Folkeparti hefur látið málið til sín taka og  þar á bæ vilja menn þrengja reglur sem lúta að lífstíðardæmdum mönnum. Hafa þeir flutt tillögu um málið á þingi.

Nánar  má lesa um þennan danska útúrdúr hér: https://www.dr.dk/nyheder/politik/df-folk-der-opsoeger-livstidsfanger-har-noget-helt-galt-med-doemmekraften

 

By |6. febrúar 2019|